Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að endurskipulagning atvinnulífsins eftir hrun sé ein helsta ástæðan fyrir þeirri mjúku lendingu sem nú sé í kortunum. Fyrirtækin séu betur rekin og betur fjármögnuð og efnahagsstjórnin skynsamlegri. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Ásgeir í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu. Bókin kom út í dag.

Eftir fordæmalausan uppgang í efnahagslífinu frá árinu 2012 til og með 2018 fór að hægja á hagkerfinu síðasta vetur. Þá var óvissa vegna kjaraviðræðna á almennum vinnumarkaði, Wow réri lífróður, verðbólguvæntingar fóru hækkandi og krónan gaf eftir um tíma. Um þessar mundir er nákvæmlega ár síðan Seðlabankinn hækkaði stýrivexti en það var í nóvember í fyrra. Voru vextirnir hækkaðir um 0,25 prósentustig eða í 4,5%. Þegar þetta gerðist höfðu þeir verið óbreyttir í 16 mánuði og ekki hækkað í þrjú ár.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta gerðist. Wow varð gjaldþrota í mars og á svipuðum tíma tókust samningar á almennum vinnumarkaði, sem nefndir hafa verið lífskjarasamningar. Á síðustu tólf mánuðum hafa stýrivextir Seðlabankans lækkað úr 4,5% í 3,0% og hafa þeir ekki verið lægri síðan verðbólgumarkmið var formlega tekið upp árið 2001 en samkvæmt því er stöðugt verðlag skilgreint sem 2,5% verðbólga á tólf mánuðum.

Eftir fall Wow air spáðu flestallir samdrætti í hagkerfinu. Svörtustu spár gerðu ráð fyrir því að landsframleiðsla myndi dragast saman um 1,9% en það hefur ekki raungerst.

„Áður en Wow féll var félagið búið að eiga í vandræðum í töluverðan tíma. Ég held því að hagkerfið hafi að töluverði leyti verið búið að aðlaga sig að fallinu áður en félagið varð loks gjaldþrota. Fólkið sem missti vinnuna virðist hafa fundið sér önnur störf, enda upp til hópa klárt ungt fólk. Þá liggur fyrir að meðaleyðsla ferðamanna hefur aukist eftir að Wow hætti rekstri og það skiptir máli í stóra samhenginu. Svo hafa ýmsir aðrir hlutir færst til betri vegar. Það gengur vel í sjávarútvegi, þar sem verð á sjávarafurðum hefur hækkað.“

Ásgeir segir að sú endurskipulagning sem hafi átt sér stað í íslensku atvinnulífi eftir hrun sé að einhverju leyti að bera ávöxt núna.

„Fyrirtækin eru betur rekin en þau voru og betur í stakk búin til að takast á við erfitt rekstrarumhverfi en áður. Í stað þess að hækka verð hafa þau brugðist við með hagræðingu og tiltekt í sínum rekstri. Efnahagsstjórnin hefur líka verið miklu betri nú en áður. Bæði af hálfu Seðlabankans og ríkisins. Ríkisfjármálastefnan hefur unnið mun betur gegn hagsveiflunni en áður. Það má segja að við séum búin að taka út ákveðinn pólitískan þroska hvað þetta snertir eða það vona ég allavega.

Hér áður, nánast alveg frá seinna stríði, fór innlend eftirspurn ávallt úr böndunum þegar vel gekk í þjóðarbúskapnum. Mikill innflutningur leiddi til viðskiptahalla og síðan ójafnvægis á greiðslujöfnuði. Síðan þegar sló í bakseglin féll gengi krónunnar og verðbólgu fór af stað. Seðlabankinn þurfti þá að hækka vexti til að verja gengið – jafnvel þó vextir væru hækkaðir á sama tíma og efnahagslífið var á leið í samdrátt. Þetta endaði alltaf með kollsteypu og verulegum afturkipp í lífskjörum.“

Viðtalið í heild má lesa í bókinni 300 stærstu sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .