*

föstudagur, 21. janúar 2022
Innlent 29. ágúst 2021 16:02

Tiltektin farin að skila árangri

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips segir að vegferð með það að markmiði að bæta afkomu sé farin að skila sér.

Sveinn Ólafur Melsted
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segir að mikið púður hafi verið lagt í að bæta hryggjarstykki félagsins, siglingakerfið.
Haraldur Guðjónsson

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur hlutabréfaverð Eimskips verið á blússandi siglingu undanfarin misseri. Til marks um það hefur gengi hlutabréfa félagsins ríflega þrefaldast frá því fyrir ári og stendur þegar þetta er skrifað í 447 krónum á hlut.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, kveðst vitaskuld ánægður með að hlutabréfaverð félagsins hafi hækkað umtalsvert. Hann telur ástæðu hækkunarinnar vera tvíþætta. Annars vegar hafi íslenskur hlutabréfamarkaður verið í miklum blóma og Eimskip, rétt eins og önnur kauphallarfélög, notið góðs af því. Hins vegar hafi verið haldið af stað í ákveðna vegferð er hann tók við sem forstjóri í byrjun árs 2019, með það að markmiði að bæta afkomu félagsins, sem farin sé að skila sér.

„Við höfum á þriðja ár unnið að því að einfalda reksturinn og lækka rekstrarkostnað, auk þess að samþætta rekstrareiningar sem keyptar voru inn í samstæðuna á árunum 2013-2018 við reksturinn. Þessu fylgdu ákveðnar áherslubreytingar og var eitt markmið aðgerðanna að skila auknu sjóðstreymi. Hluthafar höfðu lengi kallað eftir því að EBITDA fyrirtækisins skilaði sér betur neðar í rekstrarreikning okkar, þannig að þeir gætu fengið arð af fjárfestingu sinni."

Vilhelm segir að eitt af stóru rekstrartengdu verkefnunum sem ráðist var í hafi snúist um að ná tökum á gámasiglingakerfinu, hryggjarstykkinu í rekstri félagsins. „Það þarf ekki mikla yfirlegu yfir reikninga félagsins nokkuð mörg ár aftur í tímann til að sjá að arðsemin af siglingakerfinu var óviðunandi, sérstaklega miðað við það fjármagn og eignir sem var bundið í þann rekstur sem og fjölmargt starfsfólk. Við höfum því sett mikið púður í að bæta siglingakerfið." Þar að auki hafi verið ráðist í ýmis verkefni tengd upplýsingakerfum og því að fletja út starfsemina með samþættingu starfsstöðva og styttingu boðleiða, með það að markmiði að auka skilvirkni. Loks hafi verið lögð áhersla á aukið upplýsingaflæði til starfsmanna og markaðarins um helstu verkefni sem voru í gangi innanhúss.

Vilhelm bendir einnig á að með nýlegri samkeppnissátt Eimskips við Samkeppniseftirlitið hafi ákveðinni óvissu í rekstri félagsins verið eytt. „Það var erfitt að leggja mat á stærðargráðu þessa máls fyrr en niðurstaða kom í það. Það má ætla miðað við markaðinn síðustu vikur að þessi niðurstaða í málinu hafi haft jákvæð áhrif á hlutabréfaverðið og það sama á við um reksturinn. Um var að ræða mjög gamalt mál sem fylgdi ákveðin óvissa og því var gott að klára það."

Hann er bjartsýnn á að góður taktur verði áfram í rekstri félagsins á 3. og 4. fjórðungi þessa árs. „Í gegnum tíðina hjá Eimskip hafa annar og þriðji ársfjórðungur verið sterkari en fyrsti og fjórði, sem orsakast af árstíðabundnum sveiflum. Bjartsýni okkar endurspeglast í því að við uppfærðum afkomuspána fyrir árið í heild upp í 90-100 milljónir evra. Við byggjum þá uppfærslu á afkomu fyrstu sjö mánaða ársins sem og uppfærðum horfum fyrir það sem eftir lifir árs."

Nánar er rætt við Vilhelm Má í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér