Þó háannatími verklegra framkvæmda í landinu sé nú yfirstandandi, þá fækkaði einungis um 65 manns að meðaltali á atvinnuleysiskrá á höfuðborgarsvæðinu í júní. Kemur þetta heim og saman við fréttir í Viðskiptablaðinu í vikunni um að mun minna hafi orðið úr vinnuaflsfrekum viðhaldsverkefnum en búist var við. Á landsbyggðinni er ástandið þó nokkru skárra, en þar fækkaði um 772 samkvæmt meðaltalstölum Vinnumálastofnunar. Margt af þessu fólki er í hlutastörfum svo töluleg fækkun á atvinnuleysisskránni er talsvert minni á landinu öllu.

Mikið hefur verið um uppsagnir að undanförnu sem koma til framkvæmda í haust. Er þar einkum um að ræða uppsagnir fyrirtækja í bygginga- og jarðvinnustarfsemi. Það mun því væntanlega bætast við fækkun árstíðabundna starfa. Í dag eru 16.147 manns á atvinnuleysisskrá.

Í júnímánuði bárust Vinnumálastofnun 4 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 360 starfsmönnum var sagt upp. Alls fengu 275 launamenn greitt úr Ábyrgðarsjóði launa vegna gjaldþrota í júní, 110 í maí, 156 í apríl og 136 í mars. Flestir voru starfandi í þjónustu og útgáfustarfsemi 113 og 101 í mannvirkjagerð og iðnaði.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar er skráð atvinnuleysi í júní 2009 var 8,1% eða að meðaltali 14.091 manns og minnkar atvinnuleysi um 3,5% að meðaltali frá maí eða um 504 manns. Er þá tekið tillit til allar þeirra sem eru skráðir í hlutastörfum á móti atvinnuleysisbótum, en þeir voru 2.583 í júní. Í dag eru aftur á móti samtals 16.147 manns á atvinnuleysisskrá. Á sama tíma á árinu 2008 var atvinnuleysi 1,1%, eða 1.842 manns, miðað við fyrrnefndar meðaltalsforsendur.