Eigendur flugvéla greiða mun lægra lendingargjald á Reykjavíkurflugvelli en á sambærilegum flugvöllum í öðrum löndum, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Gjaldið nemur þúsund krónum á hvert tonn. Þetta á aðeins við um þær vélar sem eru þyngri en tvö tonn. Í sumum tilvikum í öðrum löndum nemur lendingargjaldið nokkuð hundruð þúsund krónum. Engin stæðisgjöld eru rukkuð á Reykjavíkurflugvelli fyrstu sex klukkustundirnar eftir lendingu. Eftir það er rukkað eftir þyngd vélarinnar, um 1.100 krónur á tonnið fyrir fyrstu tvo sólarhringana. Eftir það eru greiddar 680 krónur fyrir sólarhringinn.

Blaðið segir af þessum sökum eigendur vélanna greiða svipað verð eða minna í gjöld til flugvallarins á sólarhring en ökumenn í miðborginni greiða fyrir gjaldskyld bílastæði.

Haft er eftir Friðþóri Eydal, talsmanni Isavia, sem fer með rekstur flugvallarins, að eitt sé að leggja flugvél á Reykjavíkurflugvelli en annað að leggja bílnum í miðborginni. „Gjaldtaka á flugvöllum hér á landi tekur ekki mið af gjaldtöku bifreiðastæða heldur af gjaldtöku á öðrum flugvöllum í öðrum löndum,“ segir hann.