Eftir rúman mánuð eru fimm ár liðin frá því að Unnur Gunnarsdóttir settist í stól forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME). Í forstjóratíð sinni hefur Unnur lagt áherslu á að byggja upp traust í samskiptum viðskiptavina við fjármálafyrirtæki sem glataðist eftir fjármálakreppuna árið 2008.

Unnur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og nam hún lög á framhaldsstigi í Kanada og á Englandi. Hún hefur komið víða við á sínum ferli í fjármálatengdum verkefnum, opinberri stjórnsýslu og í dómskerfinu, en tilviljun réði því að hún lenti í þeirri stöðu sem hún gegnir í dag.

Hvað kom til að þú varðst eftirlitsstýra fjármálakerfisins og hvað er skemmtilegast við þennan bransa?

„Tengingin við eftirlit byrjaði þegar ég var nítján ára nýstúdent úr Verzlunarskólanum. Áður en ég fór í háskóla að læra lögfræði fékk ég vinnu sem ritari bankaeftirlits Seðlabankans, en þar átti ég einnig innskot þegar ég var í námi. Síðar hélt ég til Kanada í framhaldsnám.

Að námi loknu vann ég sem dómarafulltrúi í Borgardómi Reykjavíkur í fimm ár og svo sem framkvæmdastjóri Lögmannafélagsins í stuttan tíma. Árið 1990 lá leið mín aftur inn í bankaeftirlitið, en nú sem lögfræðingur. Svo var ég í fimm ár sem sérfræðingur í fjármálaþjónustu hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel og bætti við mig námi í Evrópurétti í London. Í tvö ár eftir það var ég með eigin lögfræðiskrifstofu í einyrkjastarfsemi ásamt því að vera framkvæmdastjóri Fjölgreiðslumiðlunar. Þá var ég skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í sjö ár, eða til 2009, og var svo settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Þegar það tímabil var að síga á seinni hlutann og ég fór að hugsa um það hvað ég vildi gera var auglýst staða yfirlögfræðings hjá FME. Það blasti við að það þyrfti að ráðast í uppbyggingu í fjármálakerfinu og mér fannst ég eiga eitthvert erindi í það. Ég var ráðin í stöðuna, en einu og hálfu ári seinna atvikuðust mál þannig að það var leitað til mín um að taka að mér forstjórastöðuna tímabundið, en þáverandi forstjóri hætti fyrirvaralaust. Sumarið 2012 var ég svo fastráðin sem forstjóri FME.

Það skemmtilegasta við þetta starf er að vinna með kláru og skemmtilegu fólki að fjölbreyttum og krefjandi verkefnum sem öll miða að því að gera þjóðfélagið okkar betra.“

Hvert er hlutverk og markmið FME?

„FME hefur nokkur hlutverk sem hafa verið að breytast með tímanum. Það hlutverk sem er sýnilegast er að viðhalda löghlýðni í rekstri fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þá höfum við hlutverk við að meta áhættur í störfum eftirlitsskyldra aðila og grípa til áhættumildandi aðgerða ef þörf krefur. Frá árinu 2014 höfum við svo haft það hlutverk að stuðla að fjármálastöðugleika í formlegu samstarfi við Seðlabankann og Fjármálaráðuneytið. Síðan höfum við hlutverk við reglusetningu.

Loks framkvæmum við frumrannsóknir á meintum efnahagsbrotum á þeirri sérlöggjöf sem okkur ber að framfylgja. Það kom inn í lög árið 2007, en þá komu líka inn í lögin stjórnvaldssektarheimildir sem gáfu FME ákveðið refsihlutverk. Allt miðar þetta að því markmiði að fjármálamarkaðurinn njóti trausts markaðsaðila til að styðja við efnahagslega uppbyggingu og hagvöxt.“

Hver hefur eftirlit með eftirlitinu?

„Það eru ansi margir sem við þurfum að svara til. Innanlands er það stjórn FME, umboðsmaður Alþingis, Alþingi, ríkisendurskoðun o.fl. Einnig gerir AGS reglulegar úttektir á því hvernig við stöndum okkur í að framfylgja alþjóðlegum viðmiðum um bestu framkvæmd í eftirliti, og evrópsku eftirlitsstofnanirnar þrjár beita sér fyrir samræmdri eftirlitsframkvæmd á evrópska efnahagssvæðinu (EES). Eftirlitsstofnun EFTA hefur verið fengið tiltekið yfirþjóðlegt vald yfir FME og fjármálamarkaðnum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .