Tim Cook, forstjóri Apple, og Larry Page, forstjóri Google, eru sagðir hafa átt nokkur símtöl eftir að Apple sigraði Samsung í bandarískum dómstóli í síðustu viku.

Cook og Page eiga að hafa rætt eins konar vopnahlé sem snúa að þeim einkaleyfum sem ná yfir grundvallar eiginleika farsímastýrikerfisins Android samkvæmt frétt á Reuters. Eins og frægt er orðið tapaði Samsung fyrir Apple í síðustu viku en kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu að Samsung braut á einkaleyfum Apple sem snúa að bæði eiginleikum í farsímastýrikerfi Apple og hönnun á vörum Apple.

Einkaleyfastríðið sem háð er milli stærstu farsímaframleiðenda heims er orðið ansi dýrkeypt sé litið til lögfræðikostnaðar og skaðabóta en Samsung var dæmt að greiða Apple einn milljarð dollara í skaðabætur í síðustu viku.