Verðmæti eigna Tim Cook, forstjóra bandaríska tæknifyrirtækisins Apple, eru komin yfir milljarð Bandaríkjadala, eða andvirði um 136,5 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Komst Tim Cook í hóp milljarðamæringa í dölum talið vegna viðvarandi hækkana á hlutabréfaverði Apple, en hann á 847,969 hluti í félaginu, eða andvirði 0,02% af félaginu, auk þess að hafa fengið 125 milljón dali í tekjur á síðasta ári frá félaginu.

Gengi bréfa félagsins stendur í 445,77 dölum þegar þetta er skrifað, sem er lækkun um 1,10%, frá byrjun viðskipta í morgun, en síðasta árið fór gengi bréfanna lægst í 224,37 dali mánudaginn 23. mars síðastliðinn.

Það gerir nálega tvöföldun á innan við hálfu ári, en gengi félagsins stóð í 384,76 dölum 30. júlí síðastliðinn þegar félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt, og hefur hækkunin síðan þá því numið 15,9%.

Uppgjörið sýndi að tekjur félagsins hefðu aukist um 11% og hagnaðurinn um 18% milli ára, en félagið stefnir í að vera verðmetið á 2 þúsund milljarða dala að því er BBC greinir frá. Félagið náði því að verða fyrst til að vera verðmetið á þúsund milljarða fyrir tveimur árum.

Önnur tæknifyrirtæki eins og Facebook og Amazon hafa aukið hagnað sinn á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn hefur hrakið fleira fólk innandyra, og þar með hefur verðmæti félaganna aukist mikið. Þannig fór eignarhlutur stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg yfir 100 milljarða dala í síðustu viku.

Bæði Zuckerberg og Cook hafa heitið því að gefa stærstan hluta eigna sinna til góðgerðarstarfsemi ýmis konar.