*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Erlent 11. ágúst 2020 19:19

Tim Cook orðinn milljarðamæringur

Forstjóri Apple er kominn í hóp milljarðamæringa mælt í Bandaríkjadölum eftir hækkun hlutabréfaverðs félagsins.

Ritstjórn
Tim Cook hefur starfað fyrir Apple frá árinu 1998, en tók við sem forstjóri af Steve Jobs árið 2011.
epa

Verðmæti eigna Tim Cook, forstjóra bandaríska tæknifyrirtækisins Apple, eru komin yfir milljarð Bandaríkjadala, eða andvirði um 136,5 milljarða íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag.

Komst Tim Cook í hóp milljarðamæringa í dölum talið vegna viðvarandi hækkana á hlutabréfaverði Apple, en hann á 847,969 hluti í félaginu, eða andvirði 0,02% af félaginu, auk þess að hafa fengið 125 milljón dali í tekjur á síðasta ári frá félaginu.

Gengi bréfa félagsins stendur í 445,77 dölum þegar þetta er skrifað, sem er lækkun um 1,10%, frá byrjun viðskipta í morgun, en síðasta árið fór gengi bréfanna lægst í 224,37 dali mánudaginn 23. mars síðastliðinn.

Það gerir nálega tvöföldun á innan við hálfu ári, en gengi félagsins stóð í 384,76 dölum 30. júlí síðastliðinn þegar félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt, og hefur hækkunin síðan þá því numið 15,9%.

Uppgjörið sýndi að tekjur félagsins hefðu aukist um 11% og hagnaðurinn um 18% milli ára, en félagið stefnir í að vera verðmetið á 2 þúsund milljarða dala að því er BBC greinir frá. Félagið náði því að verða fyrst til að vera verðmetið á þúsund milljarða fyrir tveimur árum.

Önnur tæknifyrirtæki eins og Facebook og Amazon hafa aukið hagnað sinn á sama tíma og kórónuveirufaraldurinn hefur hrakið fleira fólk innandyra, og þar með hefur verðmæti félaganna aukist mikið. Þannig fór eignarhlutur stofnanda Facebook, Mark Zuckerberg yfir 100 milljarða dala í síðustu viku.

Bæði Zuckerberg og Cook hafa heitið því að gefa stærstan hluta eigna sinna til góðgerðarstarfsemi ýmis konar.

Stikkorð: Apple Facebook Mark Zuckerberg Amazon Tim Cook