Utanríkisráðherra hefur í dag, að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd, kynnt ríkisstjórninni ákvörðun sína um að ráða Tim Ward QC til að vera aðalmálflytjandi í samningsbrotamálinu sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur höfðað fyrir EFTA-dómstólnum vegna ábyrgðar á lágmarkstryggingu á Icesave-reikningunum.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu segir að Ward sé starfandi lögmaður við lögmannsstofuna Monckton Chambers í London sem sé ein hin sterkasta á sviði Evrópuréttar. Tim Ward fékk réttindi til málflutnings árið 1995 og hefur nýverið öðlast hin bresku QC-réttindi (Queen’s Council) en um tíundi hluti þeirra sem eru með málflutningsréttindi í Bretlandi er veitt sérstök heimild til að bera slíkan titil.

Meðal mála sem Ward hefur flutt eru mál sem varða jafnræðisregluna, mismunun og skaðabótaskyldu ríkja vegna vanrækslu á að innleiða tilskipanir ESB. Hann var tilnefndur sem lögmaður ársins árið 2008 í Bretlandi.