Breski lögfræðingurinn Tim Ward, sem var málflutningsmaður Íslands í Icesave málinu fyrir EFTA dómsstólnum, hefur verið valinn málflutningsmaður ársins af tímaritinu The Lawyer.

Í umsögn tímaritsins kemur fram að Ward hafi unnið eftirminnilegan og stórar sigur fyrir hönd íslenska ríkisins og að honum hafi verið lýst sem þjóðhetju hér á landi þegar EFTA dómstóllinn dæmdi í Iceave málinu í lok janúar sl.

Sem kunnugt er hafði eftirlitsstofnun EFTA, ESA, höfðað mál gegn íslenskum stjórnvöldum vegna innstæðutrygginga Iceave reikninganna margumtöluðu. Þannig taldi ESA að íslensk stjórnvöld  hefðu ekki bætt breskum og hollenskum stjórnvöldum það tjón sem þau urðu fyrir vegna Icesave reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þá kemur fram í umsögn tímaritsins að hefðu Íslendingar tapað málinu hefði það kostað íslenska ríkið um 3 milljarða Sterlingspunda, þó hið rétta sé að dómstóllinn hefði ekki ákveðið þá upphæð, en það hefði orsakað aðra fjármálakrísu hér á landi.

Tímaritið hefur eftir Össuri Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra, að íslensk stjórnvöld hefðu ráðið besta málaflutningsmann Bretlands og að vörn hans fyrir Íslands hönd í málinu hafði verið meistaraverk. Þá er haft eftir öðrum lögfræðingum að Ward sé óhræddur við að bretta upp ermar og takast á við áskoranir. Að öðru leyti er hann sagður klókur og farið er stuttlega yfir önnur mál sem hann hefur unnið að.

„Hann er lögfræðingur sem mun verða brautryðjandi um ókomin ár,“ segir í umsögn tímaritsins í lauslegri þýðingu Viðskiptablaðsins. Ward starfar hjá bresku lögmannastofunni Monckton Chambers.

Tim Ward tekur við verðlaunum breska tímaritsins The Lawyer sem málaflutningsmaður ársins. Mynd: The Lawyer.
Tim Ward tekur við verðlaunum breska tímaritsins The Lawyer sem málaflutningsmaður ársins. Mynd: The Lawyer.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Tim Ward tekur við verðlaunum breska tímaritsins The Lawyer sem málaflutningsmaður ársins. (Mynd: The Lawyer)