Dr. Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild HÍ, segir í grein í afmælisriti Tryggva Gunnarssonar að þörf sé á heildarendurskoðun á skaðabótalögum . Lögin voru sett árið 1993. Eiríkur vísar í greininni til ýmissa atriða sem þarfnast endurskoðunar, allt frá tæknilegum útfærsluatriðum yfir í grundvallarþætti laganna.

Eiríkur nefnir sem dæmi í greininni margfeldisstuðulinn í 6. grein skaðabótalaga, en hann er einn þeirra þátta sem hefur úrslitaáhrif um hve mikið tjónþolar fá í bætur. „Hann byggir á tilteknum forsendum, og það er reiknaður út stuðull árið 1999 miðað við þær forsendur. Svo líður tíminn og forsendurnar breytast. Við getum nefnt sem dæmi fjármagnstekjuskatt. Stuðullinn miðar við að fjármagnstekjuskattur sé tíu prósent, en eins og við þekkjum þá er hann 20 prósent," er haft eftir Eiríki í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hann segir hætt við því að tjónþolar fái greiddar rangar bætur, ýmist of háar eða lágar, en „markmiðið hlýtur að vera að hafa þetta rétt. Skaðabótalögin miða öll við það að tryggja bætur fyrir fullt tjón. En ef hinn undirliggjandi stuðull sem ræður fjárhæð bótanna þá er hætt við að það sé ekki rétt." Eiríkur telur auk þess mikilvægt að endurskoða ákvæði laganna um lágmark- og hámarks árslaun.

Eiríkur vonast til þess að lögin verði tekin til endurskoðunar, enda séu miklir hagsmunir í húfi. „Þetta eru gríðarlega miklir hagsmunir að hafa þetta rétt. Hér verða gríðarlegur fjöldi umferðarslysa og vinnuslysa á ári hverju. Það eru miklir hagsmunir fyrir tjónþola og samfélagið allt að við reynum að hafa þetta rétt og að kerfið tryggi fullar bætur.“