Tilkoma afleiðumarkaðar er ein af þeim nýjungum sem að samruni Kauphallar Íslands við norrænu kauphöllina OMX hefur í för með sér, en strax og ljóst var að af samruna yrði var tilkynnt að opnað yrði fyrir viðskipti með afleiður. Kauphöllin hefur nú tilkynnt að afleiðumarkaðurinn muni líta dagsins ljós þann 14. maí.

Um verður að ræða markað með afleiður á bæði íslensk hlutabréf og vísitölur, og mun vöruúrvalið þróast eftir því sem markaðinum vex ásmegin. Samkvæmt upplýsingum Kauphallarinnar verða til að byrja með í boði framtíðarsamningar á hlutabréf allra viðskiptabankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka, og einnig verða viðskipti með valrétti á hlutabréf allra bankanna þriggja.

Þá verður verslað með framtíðarsamninga á Úrvalsvísitöluna og framvirka samninga á vísitölu neysluverðs. Loks verða á markaðinum sérsniðnar afleiður á hlutabréf skráð í Kauphöllinni og Úrvalsvísitöluna.

Eins og áður hefur komið fram verður íslenski afleiðumarkaðurinn hluti af hinum samnorræna afleiðumarkaði, sem í dag samanstendur af sænskum, dönskum finnskum, rússneskum og norskum afleiðum. Í kjölfarið fá íslenskir markaðsaðilar aðgang að norræna afleiðumarkaðinum og erlendir aðilar sem hafa aðgang að OMX ásamt afleiðumarkaðinum í Osló og EDX markaðinum í London geta sýslað með íslenskar afleiður.

Sama dag og viðskipti með afleiður hefjast í Kauphöllinni verður settur á stofn lánamarkaður með hlutabréf í Úrvalsvísitölunni.

Að sögn Þórðar Friðjónssonar forstjóra OMX Kauphallarinnar á Íslandi er afleiðumarkaðurinn mikilvæg og tímabær viðbót við fjárfestingarkosti á íslenska markaðinum. "Afleiðumarkaðurinn og virkur lánamarkaður munu vafalaust efla skoðanamyndun á markaði og styrkja verðbréfamarkaðinn í heild sinni," segir Þórður.