Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands telur tímabært að Íslendingar íhugi alvarlega hvort tímabært sé að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Ragnar í Viðskiptablaðinu í dag.

Ragnar segist telja miklar líkur á að Norðmenn gangi í Evrópusambandið innan 10-15 ára. Þess vegna sé EES-samningurinn tæplega til frambúðar og kostir Íslands í stöðunni verði þá annars vegar að ganga í ESB eða hins vegar að standa utan þess án EES-samningsins. Hins vegar sé samningurinn ekki jafnnauðsynlegur Íslendingum og gjarnan er haldið fram. Raunar sé hann að mörgu leyti til óþurftar og skaða. Þess vegna eigi Íslendingar að íhuga að segja samningnum upp, jafnvel þótt hann kynni að standa okkur til boða til frambúðar.

Í viðtalinu fjallar Ragnar einnig rækilega um stöðu efnahagsmála á Íslandi.
Hann segir að uppsafnaður verðbólguþrýstingur samfara miklum viðskiptahalla sé efnahagsklípa, sem erfitt geti reynst að komast út úr án þess að fá "í það minnsta glóðarauga". Hann telur líklegt að gengi krónunnar hrynji á næstu árum. Eitt brýnasta verkefni hagstjórnarinnar sé að koa í veg fyrir verðbólgugusu samfara því, sem að öðru óbreyttu gæti hæglega orðið 10% eða meiri.