Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir rök vera fyrir því að ákvörðun Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum í morgun sé einungis tímabundi hik í því lækkunarferli stýrivaxta sem hófst fyrir ári, að því er fram kemur í grein hans á vef samtakanna.

Nefnir hann í því samhengi að verðbólgan sé undir verðbólgumarkmiðinu, verðbólguvæntingar við verðbólgumarkmiðið og horfur á að það slakni á spennunni í hagkerfinu á næstunni samkvæmt nýrri spá bankans.

Mikið muni velta á því hvort krónan veikist frekar með útflæði fjármagns í erlendar fjárfestingar. Þrátt fyrir að nú sé spáð hægari vexti hér á landi vegna minni vaxtar í útflutningi sem og kröftugri vexti í innflutningi, þá sé bankinn enn að búast við dágóðum hagvexti á spátímabilinu.

Það er 5,2% hagvexti í ár, 3,3% á næsta ári og 2,5% árið 2019, og þar með sé hagkerfið að leita í langtímaleitnivöxt, með mjúkri lendingu eftir langt og farsælt hagvaxtartímabil. Spáin gerir jafnframt ráð fyrir að afgangur verði af utanríkisviðskiptum allt spátímabilið og því ekkert sem kalli á leiðréttingu í formi gengislækkunar eða annars sem þekkt hefur verið í íslenskri hagsögu við lok efnahagsuppsveiflna.

Ingólfur segir jafnframt að ljóst sé að Seðlabankinn sé ekki að ráða við þær sveiflur sem hafa verið á gengi krónunnar, þvert á það að hafa boðað að hann myndi grípa inn í markaðinn og jafna út sveiflurnar. Þær hafi verið allt að 3% innan dags síðustu mánuði, sem sé þrátt fyrir stóran gjaldeyrisforða og höft á innflæði fjármagnsins.

Þessar sveiflur eru líklegar til að valda minni fjárfestingu hér á landi, en samkvæmt spá bankans eru fjárfestingar atvinnuveganna sem hlutfall af landsframleiðslu taldar minnka frá 15,2% í fyrra niður í 12% árið 2019.