Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segist vera mjög ánægður með afkomu fyrirtækisins eftir annan ársfjórðung enda hagnaður góður. Hann segir sjóðstreymi fyrirtækisins vera gott en tímabundinn samdráttur í Bandaríkjunum setur strik í reikninginn.

Sala Össurar var 3% í staðbundinni mynt. Heildarsalan var 103 milljónir dollara sem er 2 milljónum lægra en á sama tíma í fyrra. Áætlanir fyrir árið 2012 gera ráð fyrir innri söluvexti á bilinu 4-6%, mælt í staðbundinni mynt. Söluvöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 4% en söluvöxtur í stoðtækjum var flatur, 1%.

Slök sala í Bandaríkjunum hefur haft áhrif á heildarsöluna en Jón segir ástæðuna vera aukið eftirlit frá endurgreiðsluaðilum sem gerir viðskiptavini varkárari. Vörurnar frá Össuri séu í dýrari kantinum þar sem þær eru á hæsta tæknistigi. Sala á öðrum mörkuðum var góð, sérstaklega sala á stoðtækjum í Evrópu og sala í Asíu var í heildina mjög góð.