Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur opnað fyrir gjaldtöku í vegakerfinu í nýrri samgönguáætlun og nefnir nokkur dæmi um mögulegar einkaframkvæmdir. Hann segir reynsluna af Hvalfjarðargöngum góða meðan Vaðlaheiðargöngin séu það ekki, þar hafi undirbúningurinn skipt sköpum.

Ein möguleg leið væri tímagjald svo ferðamenn aðstoði við uppbyggingu vegakerfisins. „Eitt af því sem hefur verið nefnt og starfshópur sem skilar af sér nú um áramót er að skoða, er gjaldtaka í vegakerfinu, til dæmis svokallað tímagjald,“ segir Sigurður Ingi.

„Þá myndi það virka þannig að ég og þú sem ökum um á vegunum allt árið myndum greiða fullt gjald, eitthvað svipað og bifreiðagjaldið er í dag, en erlendir gestir okkar sem ætla að vera hérna í viku eða hálfan mánuð myndu kaupa samsvarandi tíma. Þá annars vegar myndu bílaleigurnar rukka þá um vegagjaldið ef þeir borga það ekki sjálfir, og hins vegar þegar ferðamennirnir koma til Seyðisfjarðar með ferjunni þá þurfa þeir að skrá sig inn á vegakerfið og greiða. Þetta er víða í Evrópu og í Flórída sem dæmi, en við gætum til dæmis haft það þannig að verðið væri hlutfallslega hærra fyrir styttri tíma eins og viku.“

Ekki stefnubreyting

Sigurður Ingi leggur áherslu á að breið samstaða næðist um mögulegar einkaframkvæmdir í vegakerfinu sem starfshópurinn skoði einnig, og segist ekki vera að skipta um skoðun í málinu.

„Ég var á móti vegtollahliðum á þessar meginbrautir inn og út úr Reykjavík, sem við erum ekki að tala um nú. Enda náðist ekki breið samstaða um þá leið, en þessi umræða hefur hins vegar rutt brautina,“ segir Sigurður Ingi.

„Þau verkefni sem eru talin upp í samgönguáætluninni, sem eru dæmigerð fyrir það vel heppnaða módel sem Hvalfjarðargöngin voru, þá eru það tvöföldun þeirra, Sundabraut og ný brú yfir Ölfusá. Síðan er nýr láglendisvegur með göngum í gegnum Reynisfjall á Mýrdal, sem myndi losna við einu hækkunina á öllu Suðurlandinu sem hefur verið farartálmi og valdið vandræðum í hálku, slyddu og snjó.“

Sigurður segir að ekki hafi komið til tals að setja í einkaframkvæmd vegi á helsta grunnkerfi samgangna í landinu. „Þetta snýst meira um þar sem eru gerðar styttingar á leiðinni, þar sem hagur vegfarandans er að fara betri, styttri og öruggari leið og hann geti þá greitt fyrir það einhverja peninga. Við erum samt ekki að tala um tollahlið, heldur gjaldtöku sem þú verður ekki var við nema þú færð reikning mánaðarlega,“ segir Sigurður Ingi og nefnir dæmi.

„Vinir okkar í Færeyjum, sem eru að byggja sín göng númer 20, hafa gjaldtöku, sem hættir aldrei í þau öll. Hún lækkar þó rekstrarkostnaðinn, þegar stofnkostnaðurinn hefur verið greiddur niður. En útfærslan er ekki komin og mikilvægt þar að vandað sé til verka, en þá verður hægt að taka þau verkefni sem þannig eru tekin út úr samgönguáætluninni, og önnur verkefni færðust þá framar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .