Gunnar Baldvinsson gaf á dögunum út bókina Lífið er rétt að byrja, en líta má á hana sem nokkurs konar framhald af bókinni Lífið er framundan, sem hann gaf út á haustmánuðum 2015. Báðar bækurnar eru hugsaðar sem fræðslubækur um persónuleg fjármál fyrir ungt fólk, þótt þær geti gagnast fólki á öllum aldri.

Hvers vegna er bókin skrifuð? Hvernig datt þér í hug að skrifa þessa bók?

„Þegar ég var um það bil að klára bókina Lífið er framundan og eftir að hún kom út varð ég var við áhuga og þörf á bók um grunnatriði í fjármálum. Ég hugsaði alltaf um bókina Lífið er framundan sem ráð- gjöf fyrir ungt fólk sem væri að stíga sín fyrst skref að fjárhaglegu sjálfstæði, t.d. að byrja að búa.

Ég varð hins vegar var við áhuga á bók um grunnatriði í fjármálum eða bók fyrir ungt fólk sem er að verða fjárráða. Þessi áhugi varð til þess að ég prófaði að gera drög að efnisatriðum í bók af þessu tagi. Ég hafði óljósar hugmyndir í byrjun en fljótlega tók að mótast hugmynd um bók sem væri skipulögð með sjálfstæðum opnum um hvert viðfangsefni. Verkefnið reyndist vera mjög skemmtilegt og mér fannst það mikil áskorun að reyna að koma efninu frá mér þannig að það væri aðgengilegt og til þess fallið að kveikja áhuga lesenda,“ segir Gunnar

Bókin Lífið er rétt að byrja fjallar um grunnatriði í fjármálum, en bókin er í sex köflum.

„Í fyrsta kafla er fjallað almennt um fjármál og viðfangsefni bókarinnar. Meginefni bókarinnar hefst síðan í öðrum kafla sem fjallar um hvernig einstaklingar eignast peninga sem þeir ráðstafa síðan í neyslu og sparnað. Þriðji kaflinn fjallar um hvernig einstaklingar byggja upp eignir með sparnaði og helstu hugtök sem þarf að þekkja við skipulagningu sparnaðar. Í fjórða kafla er fjallað um lán, tegundir lána og helstu atriði sem einstaklingar þurfa að þekkja áður en þeir taka fé að láni. Í fimmta kafla eru síðan nokkur hollráð í fjármálum sem eiga við og gilda á öllum tímabilum ævinnar. Bókinni lýkur síðan á sjötta kafla sem er nokkurs konar eftirmáli bókarinnar. Aftast í köflunum eru síðan spurningar og verkefni sem tengjast efni þeirra. Í viðauka eru orðskýringar og yfirlit um formúlur í bókinni.“

Gunnar segir að allir geti lesið bókina, en að hún sé skrifuð með ungt fólk í huga sem er að verða fjárráða og stíga sín fyrstu skref í fjármálum. „Í bókinni er fjallað um grunnatriði í fjármálum og um hvert viðfangsefni á sérstakri opnu. Þannig getur bókin einnig nýst sem uppflettingarbók því auðvelt er að fletta upp á opnum um einstök viðfangsefni. Hver opna hefst á upptalningu á atriðum sem höfundur leggur áherslu á að lesendur tileinki sér og einu góðu ráði um efnið á opnunni. Samtals eru opnurnar 35 en þar af eru fjórar sem eru merktar sem ítarefni en þær eru hugsaðar fyrir þá sem vilja lesa meira eða eru lengra komnir.“

Er þessi bók fyrir sama lesendahóp og bókin Lífið er framundan?

„Báðar bækurnar eru skrifaðar fyrir ungt fólk en þó var ég með ólíka aldurshópa í huga. Ég var með fólk á aldrinum 16- 20 ára í huga þegar ég skrifaði Lífið er rétt að byrja en 20 ára plús þegar Lífið er framundan er skrifuð. Lífið er rétt að byrja er tilvalinn inngangur að bókinni Lífið er framundan sem fjallar um fjármál ungs fólks sem er að hefja framhaldsnám, starf á vinnumarkaði, byrja að búa og stefnir að fjárhagslegu sjálfstæði.“

Hagkvæmast að kaupa íbúð

Það er mikið rætt og ritað um húsnæðismál ungs fólks, eru ráðleggingar í bókunum til ungs fólks í húsnæðismálum?

„Já, í bókinni Lífið er rétt að byrja er fjallað um grunnatriði í fjármálum sem nýtast öllum og líka þeim sem vilja safna fyrir húsnæði. Í bókinni eru almennar ráðleggingar um sparnað sem eru gagnlegar fyrir ungt fólk sem er að stofna heimili og byggja upp eignir.

Í bókinni Lífið er framundan er farið yfir mikilvæg atriði sem ungt fólk þarf að huga að áður en það stofnar heimili og fer að búa. Fyrir þá sem hyggjast búa í fasteign í langan tíma er að jafnaði hagkvæmast að kaupa íbúð. Að leigja getur verið góður kostur fyrir þá sem eru að leita að húsnæði til skamms tíma eða fyrir þá sem vilja ekki eða geta ekki bundið of mikið fé í fasteign. Íbúar með búseturétt hjá húsnæðisfélagi geta komið yfir sig þaki fyrir tiltölulega litla fjárskuldbindingu og njóta öryggis þar sem afnotaréttur fylgir búseturétti. Í bókinni eru ábendingar um almennar viðmiðanir vegna fasteignaviðskipta, m.a. um hversu dýrar fasteignir fólk getur keypt og um skuldsetningu eða greiðslubyrði fasteignalána.

Nánar er fjallað um málið í Fjármálalæsi, aukablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.