Þau tímamót eru framundan í rekstri Íbúðalánasjóðs að ríkið mun að óbreyttu ekki þurfa að leggja honum til verulegar fjárhæðir á næstunni vegna vanskila. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir í samtali við Morgunblaðið að efnahagsbatinn hér á landi skili sér í rekstri sjóðsins. Þannig sé ekki útlit fyrir að vanskil muni kalla á frekari framlög frá ríkissjóði á næstunni.

„Eignasafn okkar lýsir efnahagsástandinu og hvernig það birtist í fjármálum heimilanna. Útlánaáhættan er orðin minni. Það er búið að hreinsa upp tjónið af völdum útlána. Þá situr eftir hin stóra áhættan, uppgreiðsluáhættan,“ segir Sigurður. Vísar hann þar til glataðra vaxtatekna af lánum sem greidd eru upp.