Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, segir mikil tækifæri felast í orkuskiptum og segir mikla áskorun að ná að uppfylla græna orkuþörf hér á Íslandi, sérstaklega í ljósi nýrra og markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.

„Eftir því sem samfélagið hefur vaxið og dafnað kallar það á sífellt meiri raforku. Auk þess að vera hluti af lífsgæðum okkar Íslendinga að geta fengið rafmagn af endurnýjanlegum uppruna á hagkvæmu verði, þá er það líka efnahagslega mikilvægt og skilar stórum hluta af gjaldeyrissköpun þjóðarinnar. Nú, þegar stjórnvöld hafa sett ný og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, blasa við nýjar áskoranir við að uppfylla þörf fyrir græna orku, bæði í formi rafmagns og rafeldsneytis."

Hann telur augljóst að leiðin til þess að takast á við loftslagsvána sé að hætta öllum innflutningi á jarðefnaeldsneyti og nota þess í stað innlenda græna orkugjafa. „Nú þarf samtal að eiga sér stað hvernig verður að því staðið."

Hann segir fjölmörg tækifæri liggja í orkuskiptunum fyrir íbúa landsins þegar kemur að nýsköpun, þróun og vel launuðum störfum, bæði til að leysa málin hérlendis og til útflutnings á þekkingu til annarra landa.

Fjölbreytt starfsemi

Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1995 við samruna Sambands íslenskra hitaveitna og Samband íslenskra rafveitna.

„Það eru 50 aðildarfélög hjá samtökunum, vítt og breitt um landið. Það er gríðarlega umfangsmikil og fjölbreytt starfsemi sem fellur þarna undir, og spannar hitaveitur, vatnsveitur og fráveitur landsins og svo framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku."

Páll segir hlutverk Samorku að stafrækja trúverðugan og fræðandi vettvang um starfsemi orkuveitufyrirtækja á Íslandi.

„Við söfnum upplýsingum og greiningum og miðlum þeim til almennings. Hjá Samorku starfa sérfræðingar í málefnum orku- og veitumála þar sem unnið er faglegt starf með aðildarfyrirtækjunum og stjórnvöldum að því að efla og bæta orku- og veitustarfsemi til hagsbóta fyrir samfélagið."

Einfalda þurfi regluverk

Hann kallar eftir umbótum í lagaumgjörð orku- og veitumála. „Það þarf að einfalda regluverkið og gera það skilvirkara, ekki síst til að geta sinnt markmiðum í loftslagsmálum innan þess tíma sem stefnt er að. Ef fyrirtækin eiga að hlaupa hraðar verður öll umgjörðin og regluverkið að gera þeim það kleift."

Hann ítrekar að auðvitað eigi að uppfylla allar lagalegar skyldur og vanda sig en að það þurfi einfaldlega að taka til í regluverkinu og útrýma sóun á tíma og peningum. „Það er algjör óvissa fyrir þá sem ætla að auka raforkuframleiðslu í fyrsta lagi hvaða svæði megi nýta til þess, hvenær og hvort þú komist í gegnum ferlið."

Páll segir að markmið um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 sé raunhæft en að það náist ekki nema komi til umbóta á lagaumgjörðinni og öllu stjórnkerfinu sem fylki sig á bak við verkefnið.

„Stóra hlutverk stjórnmálanna er að sjá til þess að orku- og veitufyrirtækin geti sinnt sínu hlutverki eins og best er kosið fyrir samfélagið. Við erum í einstakri stöðu á heimsvísu, en 85% af allri orku sem við notum er græn og endurnýjanleg orka, hvort sem er fyrir heimili eða atvinnulíf. Það er einstakt á heimsmælikvarða."

Nánar er rætt við Pál um orkumálin í fylgiritinu Samorkuþing, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .