Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann 20. júní sl. úrskurð í máli Vegmerkingar ehf. gegn Ríkissjóði Íslands sem vakið hefur talsverða athygli meðal verktaka innan Samtaka iðnaðarins. Þar var ríkið fyrir hönd Vegagerðarinnar dæmt skaðabótaskylt gagnvart Vegmerkingu sem átti næst lægsta tilboðið í útboði um vegmerkingar á suðvestursvæði og hringvegi að Selfossi til þriggja ára.

Taldi dómurinn að Vegagerðin hafi með samningum við lægstbjóðanda brotið eigin útboðsreglur þar sem lægstbjóðandi hafi ekki staðist útboðsreglur þegar tilboð voru opnuð, heldur bætt stöðu sína eftirá með samstarfi við erlent verktakafyrirtæki. Þykir verktökum sem Viðskiptablaðið ræddi við að þetta sé tímamótadómur.

Stefán Erlendsson, lögfræðingur Vegagerðarinnar, segir málið vissulega vera óvenjulegt að því leyti að sambærilegt mál hafi ekki áður komið til kasta dómstóla. Ekki liggur fyrir hvort ríkið muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar.

Ríkislögmaður hefur óskað eftir áliti Vegagerðarinnar þar um og er það nú til skoðunar. Þá er ljóst, að sögn lögmanns Vegagerðarinnar, að samningum við lægstbjóðanda verður ekki rift þar sem þegar er búið að vinna hluta verksins.

Í dómnum var ekki tekin afstaða til skaðabótaupphæðar og segir lögmaður Vegagerðarinnar að stefnandi verði að geta sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni og þá hvaða bótakröfur hann geri. Þá reyni á hvort samkomulag næst um bætur eða hvort slíkt mál fari líka fyrir dóm.