Í nýjasta tölublaði tímarits bandarísku læknasamtakanna, Journal of the American Medical Association ; JAMA, er birt grein eftir vísindamenn og samstarfsaðila Íslenskrar erfðagreiningar um niðurstöður lyfjaprófana á hjartalyfinu DG031. Einnig er fjallað um greinina og almenna þýðingu niðurstaðnanna í ritstjórnargrein í blaðinu. Í greininni er lýst jákvæðum áhrifum lyfsins á ýmsa áhættuþætti hjartaáfalls.

Greint er frá því að lyfið dragi úr myndun á öflugum bólguvaka sem erfðarannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt að tengist aukinni hættu á hjartaáföllum. Í greininni kemur einnig fram að lyfið hafi áhrif á ýmsa mikilvæga áhættuþætti hjartaáfalla sem tengjast bólgum í æðakerfinu. Þetta er í fyrsta sinn sem lýst er klínískri lyfjarannsókn á nýju lyfi á grundvelli erfðarannsókna á algengum sjúkdómi segir í frétt frá ÍE.

?Niðurstöðurnar sem við kynnum í þessari vísindagrein eru afar spennandi og sýna að það er hægt að nota grundvallaruppgötvun í erfðafræði til að þróa ný lyf gegn alvarlegustu heilbrigðisvandamálum samtímans. Í fyrra birtum við vísindagrein um erfðarannsóknir okkar á hjartaáföllum og uppgötvun á fráviki í líffræðilegu ferli sem orsakar jafnvel meiri hættu á hjartaáföllum en hækkað kólesteról. Núna virðist okkur hafa tekist að leiðrétta þetta frávik með nýju lyfi," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. ?Það má kannski segja að við séum í svipaðri stöðu í dag og stóru, alþjóðlegu lyfjafyrirtækin voru á níunda áratugnum þegar þau höfðu sýnt fram á að blóðfitulækkandi lyf, sem eru mest seldu lyfin í heiminum í dag, lækkuðu blóðfitu en ekki hafði enn verið sýnt fram á að þau minnkuðu líkur á hjartaáföllum. Við höfum nú sýnt fram á að DG031 hefur áhrif á áhættuþætti hjartaáfalla en við vitum þó ekki enn með vissu hvort það hafi áhrif á sjúkdóminn sjálfan. Næsta verkefni okkar verður að svara þeirri spurningu."

Lyfjaprófanirnar sem kynntar eru í greininni voru af svokölluðum fasa II þar sem könnuð voru áhrif mismunandi skammtastærða lyfsins á ýmsa líffræðilega áhættuþætti hjartaáfalls og mögulegar aukaverkanir. Helstu niðurstöður rannsóknanna voru að lyfið lækkar styrk bólguvakans leukotriene B4 (LTB4), sem er lokaafurð þess líffræðilega ferils sem erfðarannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt að tengist aukinni hættu á hjartaáfalli. Einnig kom í ljós að lyfið lækkar styrk mýelóperoxídasa (MPO) og C-reactive protein (CRP) en aukinn styrkur beggja þessara prótína hefur verið tengdur aukinni hættu á hjartaáföllum í ótengdum rannsóknum. Engar alvarlegar aukaverkanir komu í ljós.

Á grunni þessara niðurstaðna er nú unnið að því að skipuleggja þriðja og síðasta fasa lyfjaprófana þar sem kannað verður hvort lyfið fækki hjartaáföllum í hópi einstaklinga sem taka lyfið miðað við hóp sem tekur lyfleysu. Þær munu fara fram á Íslandi og í fleiri löndum Evrópu og í Bandaríkjunum. Reiknað er með því að þær hefjist á seinni hluta þessa árs og taki rúm tvö ár. Ef niðurstöður þeirra verða jákvæðar verða næstu skref leyfisumsóknir, skráning og markaðssetning.