*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 8. apríl 2019 12:22

Tímapressa á kaupum á rekstri Wow air

Annar skiptastjóra þrotabús Wow air, segir mikinn þrýsting vera á þeim aðilum sem vilja kaupa rekstrarhlutann úr búinu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóra þrotabús Wow air, segir mikinn þrýsting vera á þeim aðilum sem vilja kaupa rekstrarhlutann úr búinu. Þrystingurinn sé kominn frá leigusölum flugvélanna sem sjá hag sinn í því að vélarnar verði áfram notaðar með sama útliti. Auk þess séu þeir sem úthluti „slottum“ sem Wow air átti að missa þolinmæðina. Vísir greinir frá þessu.

Þá staðfestir Sveinn Andri að einhverjir aðilar hafi haft samband og lýst yfir áhuga á að kaupa rekstarhlutann út úr búinu. 

„Við skiptastjórarnir erum alveg rólegir þannig lagað. Við höfum tekið mönnum fagnandi og myndum fagna því ef kæmi fé inn í búið fyrir verðmæti,“ hefur Vísir eftir Sveini Andra.

Eins og fjallað hefur verið um undanfarið þá hyggst Skúli Mogensen, ásamt helstu lykilstarsmönnum sínum hjá Wow air, endurvekja rekstur Wow air. Þeir leiti fjármögnunar upp á 4,8 milljarða króna til þess að koma rekstrinum í gang á ný.

Spurður um hvers vegna það þurfi að hraða þessum ákvörðunum, segir Sveinn Andri að það sé fyrst og fremst vegna tveggja aðila.

„Það er Samgöngustofa sem getur ekki haldið þessu leyfi hangandi. Auk þess sem þessi slott eða leiðir, það þarf að koma þeim aftur í umferð. Þessir stjórnendur úti sem sjá um að úthluta slottum, þeir eru ekki mjög þolinmóðir. Síðan eru þetta aðallega leigusalar flugvélanna sem sjá sér ákveðinn hag í því að nýr aðili taki yfir vélunum sem eru með sama útliti og lógó því þá þarf ekki að fara út í mikinn kostað við að breyta vélunum. Ég hefði bara haldið að það væri dagurinn í dag en það má vel vera að þeim takist að kreista út einhverja auka fresti en það erum ekki við sem ráðum ferðinni þar,“ sagði Sveinn Andri í samtali við Vísi.

Stikkorð: Wow air