Ólíklegt má telja að innlendur gjaldeyrismarkaður nái í fyrirsjáanlegri framtíð áþekkri stærð og raunin var fyrir bankahrunið og upptöku gjaldeyrishafta.

Meðan núverandi gjaldeyrishöft eru við lýði munu gjaldeyrisviðskipti verða með svipuðu móti og verið hefur undanfarnar vikur.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun en Greining Glitnis segir að jafnvel þótt fjármagnsflutningar verði gefnir frjálsir á nýjan leik muni aðgangur að erlendum gjaldeyri verða takmarkaður vegna þess álitshnekkis sem innlent fjármálakerfi hefur beðið, auk þess sem áhættufælni er enn mikil á heimsvísu og lausafé af skornum skammti.

„Því kann þess að verða langt að bíða að mánaðarleg velta á gjaldeyrismarkaði hlaupi að jafnaði á hundruðum milljarða, líkt og raunin var frá árinu 2005 fram á síðasta haust,“ segir í Morgunkorni.

Þá segir Greining Glitnis að gjaldeyrisviðskipti hérlendis séu nú aðeins brot af því sem var undanfarin misseri.

„Má segja að gjaldeyrismarkaðurinn sé kominn á svipaðar slóðir og fyrir tíu árum síðan hvað umfang millibankamarkaðar með gjaldeyri varðar,“ segir í Morgunkorni.

„Heildarviðskipti með gjaldeyri eru þó talsvert meiri en fyrir áratug þar sem verulegur hluti þeirra fer ekki gegn um millibankamarkað. Líkt og þá var hefur Seðlabankinn verið hlutfallslega nokkuð umsvifamikill í gjaldeyrisviðskiptum frá bankahruninu í októberbyrjun eftir að hafa verið lítill í umsvifum árin á undan.“

Sjá nánar í Morgunkorni Glitnis.