Unnið hefur verið að sölu á tímaritaútgáfu Fróða um nokkurt skeið og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er farið að nálgast niðurstöðu málsins. Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og einn af stofnendum Blaðsins, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að hann hefði áhuga á að kaupa fyrirtækið og sagðist reyndar hafa haft áhuga á því síðan árið 2004. "Ég hef verið tengdur þessu máli í svo langan tíma að um leið og ef mér tekst að klára þetta einhverntímann mun ég án efa segja frá því," sagði Sigurður.

Þorgeir Baldursson, forstjóri Kvosar móðurfélags Fróða, staðfesti að unnið væri að sölu Fróða en hann liti svo á að þar til frá sölunni hefði verið gengið ríkti trúnaður um málið. "Ég get alveg viðurkennt að það séu aðilar að vappa í kringum þetta og allt er til sölu fyrir rétt verð. Málið er hins vegar ekki á því stigi að það sé hægt að staðfesta neitt á þessari stundu. Ég verð hins vegar var við að þetta vekur mikla athygli," sagði Þorgeir þegar haft var samband við hann í gær.

Fróðaútgáfan komst í eigu Kvosar, móðurfélags Prentsmiðjunnar Odda, á síðasta ári, en hafði áður verið rekin af Magnúsi Hreggviðssyni útgefanda. Rekstur félagsins hefur ávallt verið erfiður og oftast hefur verið taprekstur af henni. Fyrir tæpum áratug var áhugi fyrir að skrá félagið í kauphöll en af því varð ekki.

Mikael Torfason, fyrrverandi ritstjóri DV, var ráðinn aðalritstjóri Fróða í maí síðastliðnum.