Listamaðurinn Marcus Lyall hefur nýlega sent Íslandsstofu bréf þess efnis að markaðsherferðin Let it Out, sem MC Saatchi vann fyrir hönd stofunnar, byggi á hugverki hans Scream the House Down, sem hefur staðið yfir frá 16. júní síðastliðnum í London .

Íslandsstofa sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kemur að erfitt sé að sjá „hvernig verkefni sem hefur verið í vinnslu frá því um miðjan apríl geti byggt á hugverki sem var fyrst kynnt þann 16. júní.“

Í tilkynningunni segir að kynningum fyrir útboð markaðsverkefnisins Saman í sókn var skilað til Ríkiskaupa þann 30. apríl. Íslandsstofa fékk kynningu á verkefninu Looks Like you Need Iceland frá MC Saatchi og auglýsingastofunni Peel sem hluta af því útboði þann 6. maí síðastliðinn.

Hluti af þeirri tillögu var aðgerðin Let it Out, sem fólst í að gera app sem myndi gefa fólki tækifæri til að losa um streitu með því að öskra í appið og fá myndband af öskrinu spilað á Íslandi. MC Saatchi og Peel kynntu þá þegar starfhæft demo af vefsvæðinu sem notað er í dag, „svo það má vera ljóst að unnið hafði verið að hugmyndinni í talsverðan tíma áður en hún var kynnt fyrir Íslandsstofu.“

„Þó það kunni að vera um einhver líkindi að ræða milli listaverks Marcus Lyall og herferðar Íslandsstofu, þá fáum við ekki séð hvernig tímasetningarnar þessa erindis ganga upp.“