*

þriðjudagur, 15. október 2019
Innlent 8. apríl 2019 17:05

Tímaskekkja Símans með línulegt efni

Framkvæmdastjóri GR gagnrýnir Símann en vill fá félagið í viðskipti og réttlætir að Gagnaveitan sé í opinberri eigu.

Höskuldur Marselíusarson
Framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur segir félagið hafa komið með samkeppni inn á innviðamarkað fjarskipta, og réttlætir að félagið sé í opinberri eigu með því að það hafi fjármagnað sig á einkamarkaði án ábyrgðar Orkuveitunnar á lánunum.
Haraldur Guðjónsson

Á síðustu árum hafa kvartanir og kærur gengið á milli Símans annars vegar og keppinauta þeirra í Sýn hins vegar. „Þetta er mál á milli Vodafone og Símans, en bitnaði á okkur og okkar viðskiptavinum, svo við höfum verið beinir aðilar að málaferlunum,“ segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.

„Deilurnar snúast um að verja rétt neytenda til að hafa val um hvar þeir kaupi fjarskiptaþjónustu og fái aðgang að þjónustu á viðráðanlegu verði, hvort sem það er á okkar innviðaneti, í eigu Símasamstæðunnar eða öðru. Tímaskekkjan hefur verið að Síminn hefur ekki viljað hleypa Sjónvarpi Símans inn á okkar kerfi nema fólk kaupi þá öðruvísi þjónustu sem er þá dýrari.

Afleiðingin af þessu hefur verið sú að frá frá 16. desember 2015 hafa kúnnar á okkar neti ekki haft aðgang að ólínulegu efni Sjónvarps Símans nema nýlega eitthvað takmarkað aftur í tímann. En eins og við þekkjum þá horfir fólk minna á línulegt efni í dag, nema kannski fótboltaleiki, áramótaskaupið og kannski stundum fréttir, að öðru leyti vill fólk fá sveigjanleikann.

Póst- og fjarskiptastofnun er með þetta mál á sínu borði en ég trúi því að það muni breytast í framtíðinni að fyrirtæki geti reynt að stýra kauphegðun heimila á annarri þjónustu eins og internettengingu, eftir því hvaða sjónvarpsefni það vilji kaupa. Það er hættuleg staða fyrir neytendur á Íslandi, því þeir ætlast til þess að geta bara keypt eins og til dæmis Apple box og verið með aðgang að allri sjónvarpsflórunni óháð því hvar þeir kaupa aðra þjónustu.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir framkvæmdastjóri GR viðsnúning í rekstri síðasta árs, stærsta fjárfestingarárs félagsins, bara byrjunina og að skuldahlutfallið muni fara hratt lækkandi. Jafnframt segir hann að í upphafi árs hafi sá árangur náðst að helmingur íbúða landsins væri tengdur ljósleiðara, en þrátt fyrir sögusagnir þar um hafi það aldrei gerst í ljósleiðaravæðingunni að grafnir væru tveir skurðir fyrir annars vegar GR og hins vegar Mílu, dótturfélag Símans.

Arðbær verkefni réttlæti að félagið sé í opinberri eigu

Eins og gefur að skilja hefur Gagnaveitan, sem er opinbert enda að mestu í eigu Reykjavíkurborgar í gegnum Orkuveitusamstæðuna, fengið á sig nokkra gagnrýni fyrir að vera í svona miklum fjárfestingum í áhætturekstri í samkeppni við einkaaðila.

„Ég held þetta sé alls ekkert einsdæmi hér á landi, og alls ekki óalgengt að félög eins og okkar séu í opinberri eigu úti í heimi. Það sem skiptir máli í þessu er að verkefnin sem við erum að fara í eru arðbær, sem á síðustu 10 árum við höfum fjármagnað á almennum markaði. Við værum ekki að fá langtímafjármagn inn í reksturinn ef reksturinn væri ekki að skila jákvæðri afkomu til framtíðar,“ segir Erling Freyr, sem leggur áherslu á að engar opinberar ábyrgðir séu á lánum fyrirtækisins og lánskjör þess verði því að byggjast á trú fjármálastofnana á fjárhag Gagnaveitu Reykjavíkur, ekki annarra.

„Okkar hlutverk er að reka arðbært fyrirtæki, Gagnaveitu Reykjavíkur, fyrir eigendur okkar í Orkuveitu Reykjavíkur, sem og að passa það að við bjóðum góða þjónustu til neytenda og aukum samkeppni. Það er ljóst að samkeppnin sem við komum með hefur verið til góðs, ef við skoðum hvar við erum í dag. Við búum við þrjú farsímanet í landinu, það er Nova, Vodafone og Símann, sem byggja öll á ljósleiðarainnviðum, og samkeppnin á farsímamarkaði, sem neytendur njóta góðs af, byggir að verulegu leyti á því að það er líka samkeppni á innviðamarkaði.“

Vill fá Símann í viðskipti

Helstu viðskiptavinir Gagnaveitunnar eru fjarskiptafyrirtæki sem jafnframt kaupa einnig af Mílu, sem er í eigu Símans. „Það eru allir í samstarfi við alla með einhverjum hætti, þó að Síminn hafi allt of lítið verið að kaupa af okkur. Við rekum opið net, sem allir geta komið inn á, líka Síminn,“ segir Erling Freyr sem leggur áherslu á það hversu einfalt er að kaupa þjónustuna.

„Þetta er orðið mjög þægilegt, því þegar búið er að tengja heimilið þá hefur það val um að skipta á milli þjónustuaðila, og/eða kaupa þjónustu af mörgum aðilum. Líkt og þegar þú notar rafræn skilríki, þá ætti þetta bara að taka nokkrar mínútur, jafnvel sekúndur, að skipta um þjónustu eða kaupa af fleiri en einum. Í dag þarf ekki heimsókn á heimilið frá tæknimanni ef þú ert með tengdan ljósleiðara frá okkur og það eru heimili sem kaupa þjónustu frá mismunandi aðilum á sama tíma. Þetta gildir um önnur þjónustufyrirtæki en Símann, sem við vildum svo sannarlega hafa í viðskiptum líka.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.