*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 25. júlí 2021 10:14

Tímaskýrslur lögmanna hunsaðar

Eitt verst geymda leyndarmál dómskerfisins er munurinn á dæmdum málskostnaði og tímaskýrslum lögmanna.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Eitt verst geymda leyndarmál dómskerfisins er að löngum hefur lögmönnum sviðið undan því hve sjaldgæft er að dæmdur málskostnaður í einkamálum sem vinnast sé á pari við tímaskýrslur þeirra. Á meðan fá aðrir sem að dómsmálum koma, á borð við dómkvadda matsmenn, dómtúlka og sérfróða meðdómendur, sína tíma greidda samkvæmt skýrslu. Rétt er að geta þess að síðastnefndi hópurinn er háður tímagjaldi sem dómstólasýslan ákveður.

Þar er á ferð gömul saga og ný, en samskipti milli LMFÍ og dómstólanna skömmu fyrir aldamót leiddu til þess að tímaskýrslur voru lagðar fram til rökstuðnings málskostnaðarkröfum. Eftir því sem fram leið fór að bera á því að skýrslurnar væru ekki virtar viðlits og hæfilegur málskostnaður ákveðinn af dómara hvers máls, oft með litlum eða engum rökstuðningi. Hjá LMFÍ stendur yfir vinna við að taka saman hve miklu skeikar á milli tímaskýrslna og dæmdrar upphæðar.

„Meginreglan í lögum er að aðila sem tapar máli að verulegu leyti ber að borga málskostnað hins. Í framkvæmd er það þannig að einungis hluti – mín tilfinning er að sá hluti sé á bilinu helmingur til tveir þriðju – fæst dæmdur. Þannig að þrátt fyrir að málið vinnist getur aðili setið uppi með reikning frá lögmanni sínum fyrir mismuninum,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, og bendir á að af þessu leiði að kostnaðarsamt geti verið að taka til varna, jafnvel gagnvart tilhæfulausum kröfum.

„Í grunninn er krafa um greiðslu málskostnaðar eins og hver önnur dómkrafa og því ætti hún að krefjast rökstuddrar úrlausnar. Mér skilst að það hafi dregið úr því að lögmenn leggi fram tímaskýrslur sínar og maður veltir fyrir sér hverju sætir. Augljósa svarið er að menn hafi gefist upp því það er sjaldnast tekið mark á þeim. LMFÍ hefur vakið máls á þessu og vonar að málið verði tekið til skoðunar,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.