Time inc., eigandi InStyle Magazine, People Magazine og Sports illustrated auk annara tímarita hefur hótað að lögsækja tímaritið Nordic Style, ef fyrirtækið breytir ekki merki (lógó) sínu á öllu efni sem gefið hefur verið út. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nordic Style Magazine.

InStyle tímaritið telur að merki Nordic Style tímaritsins gæti valdið ruglingi hjá viðskiptavinum þess fyrrnefnda. Merki Nordic Style tímaritsins er °N Style, þar sem °N merkir Nordic. Nordic Style er því knúið til að þróa ímynd sína upp á nýtt til að forðast lögsókn.

Tímaritið er ókeypis veftímarit og blogg, byggt upp af áhugafólki um norrænar áherslur í tísku, hönnun, listum, fegurð og lífsstíl. Starfsmenn þess starfs sjálfstætt, án beinna áhrifa frá auglýsendum með markmið að koma sýn sinni á framfæri ti lesenda í meira en 140 löndum.

Soffía Theódóra Tryggvadóttir, aðalritstjóri Nordic Style Magazine, segir það hafa verið mikið áfall að berast bréfið sökum alvarleika hótunarinnar. Hins vegar bendir hún á að það sé áhugavert að gera sér grein fyrir að lítið sjálfstætt veftímarit, sem dreift sé án endurgjalds, skuli vera þyrnir í augum stórs útgáfufyrirtækis í Bandaríkjnum. Það gefi til kynna að tímaritið sé með áhrif utan Norðurlandanna sem samrýmist markmiði þeirra.

Mismunandi ritstjórnaráherslur hjá tímaritunum

Tímaritin tvö eru hins vegar mjög ólík. InStyle er gefið út á prenti og selt víða um heim, á meðan Nordic Style er gefið út á vefnum og dreift endurgjaldslaust. InStyle leggur aðaláherslu á að birta umfjallanir um stíl fræga fólksins og að veita lesendum ýmiskonar tískuráð, á meðan Nordic Style fjallar um tísku og hönnun sem á uppruna sinn á Norðurlöndum. Þess er einnig gætt hjá Nordic Style að halda sjálfstæði í umfjöllunum án áhrifa frá tískuiðnaðinum og er fjallað um hæfileikaríka og skapandi einstaklinga og nýjustu strauma og stefnur eingöngu á Norðurlöndum.

Merki tímaritanna eru einnig á margan hátt ólík. InStyle merkið er hannað í einu lagi, á meðan °N Style er samansett úr tveimur hlutum. InStyle merkið er í lit en °N Style merkið er svart.

Hér fyrir neðan má bera saman merkin tvö.