TIME magazine hefur valið Vladimir Putin mann ársins árið 2007.

Á meðan Al Gore vinnur Nóbelsverðlaun og gerir umhverfismál að hversdagsmáli, á meðan bardagarnir í Írak virðast ætla að róast, á meðan Kína leggur allt í að halda stolti sínu milli þess að halda ólympíuleika á næsta ári og senda út gölluð leikföng á þessu ári og á meðan J.K. Rowling kveikir í hugum og hjörtum milljóna lesenda er það ein þjóð sem við virtumst hafa gleymt, leidd af ákveðnum manni með stáltaugar. Rússland lifir í sögunni og sagan lifir í Rússlandi.

Þannig byrjar kynning TIME á vali á manni ársins. Blaðið segir Rússland eiga Putin mikið að þakka og rifjar upp þegar Putin tók við embætti forseta árið 2000. Time segir Putin hafa byggt upp landið með þolgæði, skarpri hugsjón mikilli vinnusemi.

Putin mun hætta sem forseti Rússlands á næsta ári þar sem annað kjörtimabil hans rennur þá á enda. Hann má skv. lögum ekki sitja lengur. Hins vegar mun hann að öllum líkindum verða forsætisráðherra Rússlands á næsta ári.

Í kynningu TIME á manni ársins kemur fram að samkvæmt skilgreiningu blaðsins er það ekki heiður að vera maður ársins og hafi aldrei verið. Það er ekki vinsældarkeppni og ekki merki um stuðning blaðsins. Blaðið segir þetta vera lýsingu á staðreyndum og snúist að lokum um leiðtogahæfileika og leiðtogahlutverk. Því verður ekki neitað að Putin er áhrifamikill einstaklingur.

TIME segir Putin engan skáta. Hann er ekki lýðræðissinnaður eins og vestræn ríki myndu skilgreina lýðræði og er ekki hrifin af frjálsum fjölmiðlum. Blaðið segir Putin standa fyrir stöðugleika og forgangsraða honum fram yfir frelsi þar sem Rússland hafi ekki þekkt stöðugleika í hundrað ár. Hann hafi sett Rússland aftur á heimskortið, sé hvorki háður vestrinu né austrinu og að í dag sé Rússland áhrifaríkara en oft áður. Þess vegna er Putin maður ársins segir TIME Magazine.

Í fyrra voru það bloggarar sem voru valdnir maður ársins. Blaðið setti þá á forsíðu tölvuskjá og skrifaði á hana YOU eða ,,þú."