AT&T hefur náð samkomulagi við Time Warner um kaup á fyrirtækinu fyrir 85,4 milljarða Bandaríkjadali.
Sameining fjarsímarisans við kvikmyndafyrirtækið og fjölmiðlafyrirtækið Time Warner mun verða að veruleika um lok árs 2017.

Borgað með hlutabréfum og peningum

AT&T samþykkti að borga 107,50 dali fyrir hvern hlut í Time Warner, sem verður borgað til helminga með með beinhörðum peningum og hlutabréfum í sjálfum sér.

Forstjóri AT&T Randall Stephenson mun leiða nýja fyrirtækið en forstjóri Time Warner, Jeff Bewkes mun halda áfram tímabundið til að hjálpa til við sameininguna.

Samþætting víða um heim

AT&T er eitt af stærstu símafyrirtækjum Bandaríkjanna en jafnframt er fyrirtækið með milljónir áskrifanda af áskriftarsjónvarpsstöðvum sínum sem nú sameinast fjölmiðla- og efnisveitum Time Warner.

Time Warner rekur sjónvarpsstöðvarnar CNN, TNT, HBO, sem meðal annars framleiðir Game of Thrones, og kvikmyndaverið Warner Bros.

Svipuð þróun er víða um heim og má í því samhengi nefna kaup Símans á Skjá Einum hér á landi. Fyrirtækið ætlar sér að verða fyrsta fjarskiptafyrirtækið til að keppa við kapalsjónvarpsstöðvarnar.

Upphlaup í afþreyingariðnaði

,,Þetta mun koma a upphlaupi í hefðbundnum afþreyingariðnaði og ýta á að meira verður í boði fyrir viðskiptavini," segir fyrirtækið.

Forstjóri fyrirtækisins hefur ekki áhyggjur af því að samkeppnisyfirvöld muni stöðva samrunann því ekki sé verið að kaupa keppinaut út heldur heildsala efnis sem sé leyfilegt samkvæmt samkeppnislögum.