Alexis Tsipras, formaður vinstriflokksins Syriza og Panos Kammenos, formaður Sjálfstæðra Grikkja mynduðu í dag nýja ríkisstjórn eftir kosningar í Grikklandi. Syriza hlaut 36,3% atkvæða í kosningunum og 149 þingmenn af 302.

Eitt helsta baráttumál nýrrar ríkisstjórnar er að auka útgjöld ríkissjóðs, en fyrri ríkisstjórnir hafa reynt að loka fjárlagahallanum í Grikklandi, sem er verulegur, með aðhaldsaðgerðum. Árið 2013 voru útgjöld ríkissjóðs í Grikklandi 22,2 milljörðum evra umfram tekjur, sem er 12,2% umfram verga landsframleiðslu.

Stjórnmálaskýrendur telja líklegt að eitt af fyrstu verkum Tsipras verði að biðla til að Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og annarra leiðtoga Evrópulanda að greiða niður skuldir Grikkja.

Geta ekki tekið þýska skattgreiðendur með sér

„Grikkir hafa rétt til að kjósa hvern sem þeir vilja; við höfum rétt á því að hætta að fjármagna skuldir þeirra," er haft eftir Hans-Peter Friedrich, meðlimur í Kristilegum demókrötum í samtali við þýska blaðið Bild. „Grikkir þurfa núna að axla ábyrgðina og geta ekki dregið þýska skattgreiðendur með sér."

Tsipras sagði í gær að tími aðhaldsaðgerða væri liðinn, en á sama tíma lofaði hann að endurlífga grískt efnahagslíf. Skuldahlutfall ríkissjóðs Grikklands er nú um 176% af vergri landsframleiðslu.

New York Times greinir frá.