Búast má við því að ferðatími með sjúkrabíl frá flugvelli til Landspítalans aukist um 7,5-11,5 mínútur frá því sem nú er ef flugvöllur verður byggður í Hvassahrauni í stað Vatnsmýrar. Þetta kemur fram í skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu.

Stýrihópurinn lét framkvæma þrjá forgangsakstra hjá sjúkrabíl milli Hvassahrauns og Landspítalans til að prófa tímann sem aksturinn tekur. Vegalengdin til Landspítalans í Fossvogi er 19 kílómetrar, en til Landspítalans við Hringbraut eru 21 kílómetrar. Aksturstíminn reyndist vera á milli þrettán og hálfrar mínútu og sextán og hálfrar mínútu.

Mat stýrihópsins er að aksturstíminn frá Hvassahrauni til spítalans sé að jafnaði 7,5-11,5 mínútum lengri en frá Vatnsmýri. Til viðbótar kemur að búast má við því að flugtími til Hvassahrauns sé einni mínútu lengri en til Vatnsmýrar.