„Nú er dagur til að gleðjast yfir þeim árangri sem er að nást en ekki að steyta hnefa. Eiga ekki allir að vera glaðir? Svona á þetta að vera í aðdraganda jóla,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um þá kjarasamninga sem hann telur stefna í. Þar tók hann undir með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, sem á Alþingi fyrr í dag lýsti yfir ánægju með nýja kjarasamninga sem kunni að vera staðfestir innan nokkurra vikna.

Þingmenn körpuðu nokkuð um kjaraviðræðurnar á Alþingi í dag. Þar mæltu stjórnarliðar fyrir mikilvægi þess að kjarasamningarnir skili jafnvægi í efnahagsmálum. Stjórnarandstæðingar sögðu hins vegar að miðað við það sem hafi verið rætt um í kjaraviðræðunum í tengslum við tekjuskattsbreytingar sem samþykktar hafi á Alþingi þá stefni í að þeir sem lægstar hafi tekjurnar fái engar kjarabætur.

Þeir Sigmundur og Bjarni sögðu báðir þær breytingar sem kjarasamningarnir geti falið í sér verða til bóta fyrir alla hópa samfélagsins og ná fram kjaraaukningu. Kjarasamningarnir og skuldatillögur ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu skulda verðtryggðra íbúðalána landsmanna geti aukið jafnvægi í efnahagslífinu, hafa jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála, blásið lífi í fjárfestingar og lagt grunn að hagvexti á næstu árum. Eins og kom fram á vef Viðskiptablaðsins hefur ríkisstjórnin lagt lóð sitt á vogarskálarnar í tengslum við viðræður aðila vinnumarkaðarins um gerð kjarasamninga.

„Allt stefnir í að 2014 verði betri en öll undanfarin ár,“ sagði Sigmundur og bætti við að þessi niðurstaða ætti að senda menn tiltölulega sátta inn í jólin.