Umræða byggingu og staðarval á nýjum Landspítala hefur verið í gangi allt frá aldamótum. Skrifaðar hafa verið margar skýrslur og greinar um málið. Nú síðast birti KPMG skýrslu, sem gefin var út 31. ágúst, þar sem megin niðurstaðan er sú að ekki sé tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun um að byggja nýjan spítala við Hringbraut.

Í aðsendri grein, sem birtist í Fréttablaðinu fyrir rúmlega viku, tóku Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri af öll tvímæli um að spítalinn myndi rísa einhvers staðar annars staðar en við Hringbraut.

„Vilji Alþingis er skýr og hefur verið staðfestur með lögum," segir í grein þrímenninganna. „Stefna borgarstjórnar liggur fyrir í samþykktu skipulagi. Kyrrstaðan hefur verið rofin, tími uppbyggingar er runninn upp. Uppbygging Landspítalans verður við Hringbraut."

Nokkrum dögum áður en greinin birtist hafði Kristján Þór skrifað undir samning við Corpus-hópinn (Basalt arkitekta, Hornsteina arkitekta, Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar og VSÓ ráðgjöf) um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Þá var bygging sjúkrahótels á lóðinni boðin út í vikunni.

Berjast enn fyrir spítala á öðrum stað

Þrátt fyrir undirritun samningsins og afdráttarlaus skrif ráðherra, forstjóra Landspítalans og borgarstjóra berjast Samtök um betri spítala á betri stað (BSBS) enn fyrir því að spítalinn verði reistur á öðrum stað en við Hringbraut, svokölluðum „besta stað". Hafa samtökin meðal annars nefnt Keldnaholt, Elliðaárvog og Vífilsstaði, sem ákjósanlega staði fyrir nýjan spítala.

Samtökin gagnrýna harðlega skýrslu KPMG, sem þau telja ófaglega unna. Það var Nýr Landspítali ohf. (NLSH), sem fól KPMG að gera skýrsluna. Hlutverk KPMG var að yfirfara fyrirliggjandi gögn um hagkvæmni, kostnað, skipulagsmál og staðarval nýs Landspítala. Eins og áður sagði var megin niðurstaðan sú að ekki væri tilefni til að breyta fyrri ákvörðun um að byggja við Hringbraut.

Samkvæmt skýrslu KPMG nemur byggingarkostnaður nýs Landspítala við Hringbraut 47,6 milljörðum króna. Þá er gert ráð fyrir 82.500 fermetra nýbyggingum og endurnýjun á 56.000 fermetrum í eldra húsnæði. Samtals eru þetta 138.500 fermetrar. Til samanburðar telur KPMG að það kosti 59,8 milljarða að byggja 138.500 fermetra spítala á nýjum stað. Munurinn er 12,2 milljarðar. KPMG segir hins vegar að núvirt, þegar búið sé meðal annars  að taka tilllit til þriggja ára tafa vegna skipulagsmála á nýjum stað, sé munurinn 21 milljarður króna. "Fasteignir LSH við Hringbraut yrðu því að seljast á því verði til að kostirnir tveir teljist jafn kostnaðarsamir."

Gunnar Tryggvason er einn höfunda skýrslu KPMG. Spurður hvort það sé óraunhæft að gera ráð fyrir því að 21 milljarður fáist fyrir fasteignirnar við Hringbraut svarar Gunnar: "Við vildum ekki hafa skoðun á því eða höfðum ekki ráðrúm til að meta það. Þetta er svakalegt magn á tiltölulega góðum stað en maður veit ekki hvað menn eru tilbúnir að kaupa gamlan spítala á mikið, þannig að við treystum okkur til að meta það."

Í kostnaðargreiningu sinni, sem hægt er skoða á heimasíðunni betrispitali.is, kemst BSBS að allt annarri niðurstöðu en KPMG. Útreikningar samtakanna sýna að í samanburði við Hringbraut sé núvirtur hagur af því að byggja á „besta stað" tæpir 102 milljarðar króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .