Samningi Theresu May um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var hafnað með afgerandi og sögulegum hætti í neðri deild breska þingsins á þriðjudag. Aldrei í breskri stjórnmálasögu hefur ríkisstjórnarfrumvarp verið fellt með jafn mörgum atkvæðum.

Því liggur enginn samningur fyrir um fyrirkomulag útgöngunnar – og því hvernig samskiptum og viðskiptum eyríkisins við sambandið skuli háttað – en í dag eru 69 dagar þar til til stendur að útgönguferlinu ljúki formlega, þann 29. mars næstkomandi.

Engin samstaða á þinginu um framhaldið
Michel Barnier, yfirsamningamaður Evrópusambandsins í útgöngumálum Breta, benti í kjölfar höfnunar þingsins á samningnum á að niðurstaðan segði ekkert til um hvað Bretar vildu raunverulega fá út úr samningunum, né væri ljóst hvert framhald viðræðnanna yrði.

Hann sagði breska þingið verða að hafa hraðann á og komast að „mjög skýrri“ niðurstöðu um markmið nýs samnings, en ítrekaði að samningurinn sem þingið hafnaði hefði verið „besta málamiðlun“ sem sambandið gæti boðið upp á.

„Þessi atkvæðagreiðsla er ekki birtingarmynd skýrs meirihluta fyrir neinum öðrum valkosti,“ sagði Barnier við Evrópuþingmenn í Strassborg í Frakklandi í gær, og virtist ýja að því að það eina sem breska þingið virtist geta komið sér saman um væri hvað það vildi ekki.

Skynsamlegt að biðja um frest
Ekki liggur fyrir hvort May hyggst sækjast eftir frestun á útgönguferlinu. Ýmislegt bendir til þess að leiðtogar Evrópusambandsins væru opnir fyrir slíkri framlengingu. Peter Altmaier, efnahags- og orkumálaráðherra Þýskalands, sem talinn er áhrifamikill innan þýsku ríkisstjórnarinnar, sagði til að mynda að sæktist May eftir framlengingu yrði sú bón íhuguð vel og vandlega. „Þurfi þingið meiri tíma er það eitthvað sem Evrópuráðið verður að taka til greina, og persónulega myndi ég líta á það sem skynsamlega beiðni,“ sagði Altmaier í samtali við BBC.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér .