Tempo er hugbúnaður sem er viðbót við verkefnastjórnunarkerfið JIRA og hefur það að markmiði að bæta tímastjórnun, áætlanagerð og kostnaðarstjórnun. Stórfyrirtæki á borð við Disney, Volkswagen, Boeing, Hulu og Oracle eru í viðskiptum við Tempo, en alls stendur viðskiptavinahópur Tempo saman af um 20 þúsund fyrirtækjum víða um heim. Tempo var upphaflega þróað sem lausn við innanbúðarvandamáli hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Nýherja, sem nú heitir Origo, í kringum hrunið en árið 2015 var stofnað sérstakt félag utan um rekstur Tempo.

Eflaust hafa margir af lesendum blaðsins heyrt um Tempo en sennilega gætu færri lýst starfsemi félagsins með greinargóðum hætti. Blaðamaður settist niður með Mark Lorion, forstjóra Tempo, Pétri Ágústssyni, einum af stofnendum Tempo og sölu- og viðskiptastjóra þess, og Ólöfu Kristjánsdóttur markaðsstjóra til þess að ræða um sögu félagsins, starfsemi þess og vöxt, kaup Diversis Capital á 55% hlut í félaginu, framtíð þess og ýmislegt fleira.

Bandaríkjamaðurinn Mark Lorion tók formlega við sem forstjóri Tempo fyrir um fjórum mánuðum og segir hann að fyrstu mánuðirnir í starfi hafi farið virkilega vel af stað. „Starfsmannahópur Tempo er frábær og ég hef notið þess að eiga í samstarfi við þetta hæfileikaríka fólk. Ég hef því miður ekki haft tækifæri til þess að hitta teymið hér á Íslandi fyrr en nú vegna heimsfaraldursins en ég er mjög ánægður með að hafa loks náð að koma til Íslands. Við erum einnig með frábær teymi í Boston og Montreal, auk þess sem við erum með nokkra starfsmenn dreifða víða um heim. Það sem öll teymin eiga sameiginlegt er að þau brenna fyrir að þjónusta viðskiptavini og hjálpa þeim að bæta starfsemi sína.“

Mark hefur verið viðloðandi hugbúnaðargeirann um langt skeið og hefur sem forstjóri og stjórnarformaður leitt nokkur slík félög. „Þar hef ég m.a. tekið þátt í að þróa hin ýmsu tól og öryggis- og teymisstjórnunarkerfi. Stofnendur Tempo, þar á meðal Pétur sem situr hér með okkur, hafa unnið frábært starf við að byggja félagið upp í að verða alþjóðlegt fyrirtæki. Þar að auki hef ég reynslu af því að stýra alþjóðlegum félögum sem eru með skrifstofur og starfsemi víða um heim, eins og Tempo. Því þótti mér reynsla mín og þekking passa vel við Tempo og þegar stjórn félagsins bauð mér að leiða næsta vaxtarskref þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um.“

Tími takmörkuð auðlind

Mark segir að áherslur Tempo liggi í að þróa og bjóða upp á tímastjórnunarlausnir sem auki framleiðni teyma. „Lausnir okkar hjálpa fyrirtækjum t.d. við skipulag fjárhagsáætlana. Til dæmis hafa mörg fyrirtæki, þó að þau séu ekki beinlínis hugbúnaðarfyrirtæki, slíkar deildir innan sinna raða sem huga að og þróa tæknimál innan fyrirtækisins. Lausnin okkar samanstendur af tólum og forritum sem hjálpa hugbúnaðarteymum að halda utan um hver er að sinna hvaða verkefni og hve mikinn tíma er hægt að helga mismunandi hugbúnaðarþróunarverkefnum.“

Lausnin Tempo haldi svo utan um hve mikill tími fari í hvert verkefni og geri fyrirtækjum þannig kleift að beita þeim takmörkuðu gæðum sem það hefur, sem er mannauðurinn, á árangursríkari hátt. „Það eru bara ákveðið margar klukkustundir sem starfsmenn hafa á viku til að vinna verkefni sín og við hjálpum fyrirtækjum að nýta þann tíma eins vel og kostur er.“ Mark segir að í dag haldi lausn Tempo utan um rúmlega 200 milljónir tímaviðburða innan hinna ýmsu geira úti um allan heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .