*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Frjáls verslun 11. apríl 2021 14:01

Tíminn hjá Magasin lærdómsríkastur

Jón Björnsson, forstjóri Origo, fer yfir ferilinn í viðtali í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.

Sveinn Ólafur Melsted
Jón hefur mikla reynslu af fyrirtækjarekstri og umbreytingarverkefnum, eftir að hafa stýrt fyrirtækjum á borð við Haga, Magasin du Nord og Festi.
Eyþór Árnason

Jón Björnsson, forstjóri Origo, hefur mikla reynslu af fyrirtækjarekstri og umbreytingarverkefnum. Áður en hann tók við sem forstjóri Origo starfaði hann síðast sem forstjóri hjá Festi og Krónunni. Auk þess hefur hann starfað sem forstjóri hjá danska verslunarrisanum Magasin du Nord og íslenska smásöluveldinu Högum. Hann segir það í raun hafa verið einskæra tilviljun að hann hafi endað á að hasla sér völl innan smásölugeirans.

„Ég tel að það hafi verið einskær tilviljun að ég endaði í þessum geira fremur en einhverjum öðrum. Eftir að hafa klárað háskóla bauðst mér áhugavert starf sem var á neytendavörumarkaði. Ég var heppinn að því leyti að ég fór þarna inn í umhverfi sem mér leið vel í, fannst ég geta gefið eitthvað af mér í og haft einhverjar skoðanir á. Ég hefði allt eins getað endað í starfi á markaði sem ég hefði ekki haft neitt gaman af." Jón segir að af öllum öðrum verkefnum sem hann hafi tekið sér fyrir hendur á ferlinum ólöstuðum sé tími hans hjá Magasin du Nord sá lærdómsríkasti. Undir stjórn Jóns stórbatnaði rekstur þessarar fornfrægu verslunar til hins betra.

„Magasin du Nord-verkefnið er það lærdómsríkasta sem ég hef farið í og hefur mótað mig meira sem stjórnanda en nokkuð annað verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Þarna tókst ég á við umbreytingu á fyrirtæki og þegar hún var ágætlega á veg komin þá skall á kreppa. Þá var fyrirtækið selt í tvígang á þeim rúmlega sex árum sem ég starfaði þar. Það var því nóg af áskorunum sem við þurftum að glíma við." Hann kveðst vera mjög stoltur af því að í dag sé teymið sem stýrir fyrirtækinu nánast það sama og hann setti saman á sínum tíma. „Það hefur enginn úr stjórnendateyminu hætt síðan ég hætti, sem má færa rök fyrir að sé full lítil breyting á löngum tíma en ég er stoltur af því að þau séu enn þarna að sinna sínum verkefnum af myndarbrag."

Stutt stopp í líftækni

Eftir að hafa látið af störfum hjá Magasin du Nord tók Jón ákveðið hliðarspor og reyndi fyrir sér í nýjum geira; líftæknigeiranum. Sumarið 2013 tók hann við forstjórastarfinu hjá ORF Líftækni.

„Þetta var mjög skemmtilegur tími sem skildi mikið eftir sig fyrir mig. Þarna öðlaðist ég reynslu sem var ólík öðru sem ég hafði tekist á við," segir Jón og kveðst vona að hann hafi náð að koma einhverju áleiðis innan fyrirtækisins og þannig skilið betur við hlutina heldur en þegar hann fékk þá í hendurnar. Það sé alltaf hans helsta markmið.

Aftur í smásöluna

Tími Jóns hjá ORF Líftækni var ekki ýkja langur eða tæplega eitt ár. Þá bauðst honum tækifæri til að stíga inn í annað umbreytingaverkefni í smásölugeiranum og var það boð sem hann gat ekki hafnað. Í byrjun árs 2014 gekk hópur fjárfesta frá kaupum á Kaupási, sem áður var í eigu Norvik, móðurfélags byggingavöruverslunarinnar BYKO. Undir hatti Kaupáss voru matvöruverslunarinnar Krónan, Nóatún og Kjarval, Intersport, auglýsingastofan Expo og vöruhótelið Bakkinn. Með kaupunum tók félagið Festi yfir rekstur Kaupáss og höfðu kaupendur samband við Jón er kaupin höfðu verið samþykkt til að kanna hvort Jón hefði áhuga á að taka þátt í þessu verkefni. Jón ákvað að slá til og kveðst hann þegar hafa verið búinn að gera sér í hugarlund hvernig umbreyting félagsins gæti farið fram.

„Ég fékk góðan tíma til að búa til planið en ég hafði lengi verið með grunnhugmyndina í kollinum. Ég hef aldrei komið jafn vel undirbúinn í neitt verkefni. Hugmyndin snerist um það hvernig ætti að reka Krónuna. Ég sá ákveðna möguleika í ELKO, sérstaklega hvað varðar netverslun. En stóra tækifærið þarna var að umbreyta hugmyndafræðinni bak við Krónuna. Ég var með ákveðna sýn á hvernig ég sá Festi sett upp. Þess vegna held ég að verkefnið hafi gengið vel þar sem sýn mín á þetta lá skýrt fyrir í kollinum á mér þegar ég tók verkefnið að mér," segir Jón og útskýrir nánar hvað fólst í hugmyndafræði sinni er sneri að breytingum í rekstri Krónunnar:

„Allar greinar og allir markaðir eru alltaf á ákveðinni hreyfingu og þarna fannst mér vera búið að myndast upplagt tækifæri fyrir þá hugmyndafræði sem Krónan lifir eftir í dag. Á sama tíma og við vildum áfram bjóða lágt vöruverð, þá vildum við að vöruúrvali verslunarinnar yrði raðað saman á framúrskarandi hátt. Auk þess settum við málaflokka líkt og umhverfismál og lýðheilsu í forgrunn. Það var gat til staðar á markaðnum sem við nýttum okkur mjög vel og ég var mest hissa á hvað við fengum einstaklega mikinn frið til þess. Ég held að það hafi enginn haft trú á þessari hugmyndafræði nema við."

Jón segir að ekki hafi verið þörf á að umbylta rekstri ELKO. „ELKO voru fyrir stórir á þessum raftækjamarkaði. Í báðum fyrirtækjum var mikið af góðu fólki en í ELKO var sýnin skýrari - þar voru stjórnendur með skarpari sýn á hvert þeir væru að stefna. Að sama skapi vantaði þessa hugmyndafræði inn í Krónuna; hver er sýnin, fyrir hvað stöndum við, afhverju erum við hérna og hver saknar okkar ef við hverfum af markaðnum? Í ELKO var því ákveðið að einblína aðeins meira á vefinn og gera búðirnar enn betri með því að fjárfesta í þeim. Það var svolítið búið að svelta umhverfið í búðunum en teymið þar innanhúss vissi alveg hvað það þyrfti að gera. Ég þurfti lítið að aðstoða þau við að hrinda þessu í framkvæmd."

Nokkrum mánuðum eftir að Festi gekk frá kaupunum seldi félagið auglýsingastofuna Expo. „Við töldum okkur ekki vera sérfræðinga í að reka auglýsingastofu og ákváðum því að hætta því, enda enginn tilgangur í að reka eitthvað sem maður hefur engan áhuga á að reka."

Sumarið 2017 var verslunum Intersport svo lokað. „Við sáum einnig engan rekstrargrundvöll fyrir Intersport og því var ákveðið að hætta þeirri starfsemi."

Nánar er rætt við Jón í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom nýlega út. Hægt er að skrá sig í áskrift hér

Stikkorð: Krónan Jón Björnsson Festi Origo