*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Erlent 3. október 2019 14:32

Tíminn naumur fyrir Breta

Boris Johnson sendi frá sér nýjar tillögur um útgöngu landsins úr ESB. Hann vill fá svör fyrir næstkomandi mánudag.

Ritstjórn
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands.
Aðsend mynd

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sendi frá sér tillögur í gær til forseta framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, að nýju samkomulagi um útgöngu landsins úr ESB. Boris vill að leiðtogar sambandsins verði búnir að ákveða, ekki síðar en á mánudaginn kemur, hvort þeir vilji hefja samningaviðræður á grundvelli tillaganna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Þar leggur Boris til að Norður-Írland verði áfram í innri markaði ESB fyrir vörur í fjögur ár eftir 31. desember á næsta ári, þegar aðlögunartímabili útgöngu Bretlands úr ESB á að ljúka. Hins vegar myndi landið ekki vera áfram í tollabandalagi Evrópusambandsins.

Enn fremur þurfi niðurstaða að koma í ljós sem fyrst til þess að Bretland geti gengið úr Evrópusambandinu 31. október næstkomandi. Ef niðurstaðan muni ekki liggja fyrir í tæka tíð muni Bretland ganga úr ESB án samnings þann dag. Í tillögunum er hins vegar gert ráð fyrir því að þing Norður-Írlands hafi loka orðið um samninginn sem væri sex mánuðum áður en aðlögunartímabilinu lýkur í lok næsta árs.