Garðar Már Birgisson, viðskiptastjóri Þulu, var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

Þula byrjaði dálítið á öfugum enda samanborið við mörg íslensk fyrirtæki. Stærstu verkefni fyrirtækisins voru frá upphafi í Noregi og það er ekki fyrr en tiltölulega nýlega sem Þula er að láta á sér kræla á Íslandi. „Við fórum á eftir tveimur verkefnum í Noregi með nokkru millibili. Bæði hentuðu okkar þekkingu og reynslu vel og þess vegna fórum við á eftir þeim að undangengnum útboðum, unnum slaginn og höfum verið í vaxandi verkefnum ytra, sem er mjög gott, þó svo að gengisþróun hafi verið óhagstæð,“ segir Garðar Már, en þegar fyrirtækið bauð í verkefnin í Noregi fengust rúmar tuttugu íslenskar krónur fyrir hverja norska krónu, borið saman við tæpar þrettán krónur í dag.

„Fyrir þremur árum byrjum við aðeins að fóta okkur á Íslandi og það er núna að skila árangri.“ Forsvarsmenn fyrirtækisins kynntu sér stefnu embættis landlæknis til ársins 2020 sem er mjög ákveðin. „Þeir vilja vera með klínískan lyfjagagnagrunn, lyfjaumsjónarkerfi fyrir inniliggjandi sjúklinga á landsvísu, samþætt sjúkraskrárkerfi og vilja loks að komið verði á miðlægu lyfjakorti,“ segir Garðar Már.

„Þetta eru þrír risastórir punktar en fyrst og fremst er þetta þannig að ef við ætlum að styðja heilbrigðisstarfsfólk í að ávísa lyfjum með öruggum hætti þá þurfum við að hafa gagnagrunna sem innihalda upplýsingar um klíníska eiginleika lyfja – hvort lyfin milliverka eða hvort menn hafi mögulega óþol eða ofnæmi fyrir þeim. Það þarf að að passa upp á réttar íkomuleiðir – t.d. um æð, vöðva eða munn. Þessir gagnagrunnar hafa ekki verið til á Íslandi,“ segir Garðar Már, en viðlíka gagnagrunnar þekkjast til dæmis frá Noregi og Danmörku, Svíþjóð og víðar.

„Við erum afskaplega ánægð með að geta haft milligöngu um að norska lyfjastofnunin er núna í samvinnu við íslensk heilbrigðisyfirvöld og leggja okkur til sinn gagnagrunn, án endurgjalds, en þróun grunnsins hefur kostað Norðmenn háar fjárhæðir og er í stöðugu viðhaldi. Þula hefur útbúið hugbúnaðartól sem tekur norsku gögnin og staðfærir þessa klínísku grunna fyrir íslenskan markað,“ segir Garðar Már. „Við erum í þessu verkefni að hugsa um hag allra á markaðnum. Núna geta allir sem framleiða hugbúnaðarkerfi sem tengist lyfjum notað þennan gagnagrunn undir sín kerfi,“ segir Garðar Már og segir að embætti landlæknis og Lyfjastofnun hafi sýnt mikið frumkvæði hér.

Sparar gríðarlegan tíma og peninga

Lyfjafyrirmælakerfi Þulu sem nefnist eMed og lyfjaumsýslukerfið Alfa, sem heldur utan um lyfjabirgðir, eru að sumu leyti hvor sín hliðin á sama peningnum. „Ef röng lyf eru gefin, eða með röngum hætti, þá getur það leitt til þess að sjúklingur verður veikari, sem leiðir þá til lengri sjúkrahúslegu og meiri kostnaðar. Ef við getum dregið úr þessum óhöppum spörum við peninga, að ógleymdu öllu óhagræðinu fyrir sjúklinginn. Hin lausnin, birgðalausnin, sparar gríðarlega mikla vinnu á lyfjalagerum sjúkrahúsa, öldrunarheimila og í apótekum. Menn hafa reiknað út að það sparist einn til einn og hálfur klukkutími á hverri deild á dag. Á spítala á stærð við Landspítalann gætu þetta verið allmörg stöðugildi á ári. Þá er eftir ávinningurinn sem verður í apótekinu. Við höfum séð tölur frá Noregi sem benda til að það gætu sparast að minnsta kosti þrjú stöðugildi í apóteki sem er á stærð við apótek Landspítalans,“ segir Garðar Már.

„Eins og ferlið er í dag þá eru sjúkrahús með miðlægar lyfjabirgðir í apóteki. Síðan eru fjöldi lagera, kannski tíu á lítilli stofnun og nálægt hundrað á Landspítalanum. Á hverri þessara deilda eru skápar með fjölda lyfja á hverjum tíma. Hluti af vinnu hjúkrunarfræðinga er að fara á hverjum degi yfir þessa lyfjaskápa handvirkt og passa að það sé nóg til af réttum lyfjum en ekki of mikið. Þetta tekur tíma. Stundum gleymist að panta einhver lyf sem þá vantar þegar á reynir. Svo er tilhneiging til að passa upp á að það sé örugglega nóg til og þá er stundum pantað  of mikið. Það getur leitt til þess að of mikið sé til af einhverjum lyfjum á deildunum og þau renna út á tíma og fyrnast. Það getur kostað umtalsverða fjármuni,“ segir Garðar Már.

„Við stillum upp þessum lagerum á deildunum þannig að þegar þú undirbýrð lyfjagjöf þá skráirðu með einföldum hætti öll lyf sem fara út. Þá vitum við upp á hár hvað er til á hverjum stað. Þegar birgðastaðan dettur niður fyrir skilgreind birgðalágmörk er gerð sjálfvirk áfyllingarpöntun í apótekið og hjúkrunarfræðingarnir geta hætt að hugsa um þessa lagera og að hafa áhyggjur af því að panta. Tíminn sem sparast er örugglega vel þeginn á tímum þar sem álag á heilbrigðisstarfsfólk er mikið og vaxandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .