Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, er sannfærður um að ráðamenn aðildarríkja Evrópusambandsins nái saman um aðgerðir til að slá á skuldakreppuna á evrusvæðinu og að þeir nái að koma í veg fyrir að hún hafi áhrif á heimshagkerfið.

Geithner er um þessar mundir á ferðalagi um Evrópu og ræðir hann þar við helstu þjóðarleiðtoga.

„Ég er viss um að þeim muni takast þetta,“ sagði hann í samtali við bandaríska stórblaðið Wall Street Journal. Ráðherrann fundar með Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, í dag.

Þjóðarleiðtogar evruríkjanna funda á morgun og föstudag um skuldakreppuna í Brussel. Á meðal þess sem verður á borðum þeirra eru hugsanlegar breytingar á stofnsáttmála Evrópusambandsins, bjögunarsjóður ESB-ríkjanna og fleira sem talið er nauðsynlegt til að slá á kreppuna.