Ný útgáfa af stefnumótasmáforritinu Tinder er komin á markað í Bretlandi og ber nýja þjónustan nafnið Tinder Plus. Notendur hennar munu geta gert hluti sem hingað til hefur ekki verið hægt að gera í forritinu, en þurfa hins vegar að borga fyrir þjónustuna. Greint er frá þessu í frétt Business Insider.

Tinder er notað af fólki til að finna mögulegan maka, tímabundinn eða til lengri tíma, og er það gert með því að notendur skoða myndir hver af öðrum og gefa merki um það hvort áhugi á viðkomandi sé til staðar eða ekki. Hafi tveir notendur gefið til kynna að þeir hafi áhuga hvor á öðrum fá þeir báðir tilkynningu þar um.

Áhugavert er að greiðslan sem notendur Tinder Plus þurfa að inna af hendi er háð aldri þeirra. Þeir sem eru 28 ára eða eldri munu þurfa að greiða 14,99 pund á mánuði en þeir sem yngri eru munu aðeins þurfa að greiða 3,99 pund.

Notendur Plus munu geta skipt um skoðun þegar kemur að áliti þeirra á öðrum notendum og munu einnig geta skoðað notendur í öðrum löndum, nokkuð sem ekki mun vera hægt að gera nú. Þá á að minnka notagildi ókeypis útgáfu Tinder, m.a. með því að takmarka fjölda þeirra ákvarðana, þ.e. að "læka" eða ekki, sem notendur geta tekið á tilteknu tímabili.