Svo gæti farið að stefnumótaforritið Tinder verði metið á þrjá milljarða Bandaríkjadollara þegar það fer á markað, sem gæti gerst á næstunni.

Þegar greint var frá því að Tinder færi á markað í júní gerði Bank of America Merrill Lynch ráð fyrir því að forritið væri 1,35 milljarða dollara virði. En miðað við hversu margir hafa nýtt sér áskriftarleiðir Tinder segir bankinn að tekjur forritsins gætu numið 250 milljónum dollara og virði þess þremur milljörðum dollara.

Upphaflega gerði BAML ráð fyrir því að hver kúnni væri 27 dollara virði, en notendur forritsins eru alls 50 milljónir. Facebook borgaði hins vegar á sínum tíma 33 dollara fyrir hvern notanda þegar fyrirtækið keypti Instagram og 42 dollara á notanda við kaupin á WhatsApp. Á þeim grundvelli gæti Tinder verið mun meira virði.

IAC, móðurfyrirtæki Tinder, tilkynnti 59,3 milljóna dollara hagnað fyrir annan ársfjórðung þessa árs, samanborið við 18 milljóna dollara tap á sama tíma í fyrra. Tinder virðist því vera á mikilli uppleið.