Bandaríska fyrirtækið Match Group sem rekur stefnumótaforritin Tinder og Hinge hefur ákveðið að hætta allri starfsemi í Rússlandi frá og með 30. júní nk. Ákvörðunin kemur næstum einu og hálfu ári eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að Match Group vilji standa vörð um mannréttindi og segir framkvæmdastjórinn að það líti ekki vel út fyrir fyrirtækið að halda áfram starfsemi í landi þar sem leiðtogi þjóðarinnar er eftirlýstur glæpamaður af Alþjóðasakamáladómstólnum.

Í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu tóku fjölmörg fyrirtæki þá ákvörðun um að slíta tengsl sín við Rússland, þar á meðal McDonald‘s, Coca-Cola, Starbucks og Heineken.

Match Group segir Tinder vera vinsælasta stefnumótaforrit í heimi og starfa rúmlega 2.700 manns hjá fyrirtækinu. Match Group segir hins vegar að áframhaldandi starfsemi fyrirtækisins í Rússlandi hefur haft neikvæð áhrif á viðskipti sín í Evrópu.

Mark Dixon, stofnandi aðgerðarhópsins The Moral Rating Agency sem kallar eftir því að vestræn fyrirtæki yfirgefi Rússland, segir rökin sem Match Group gefa um verndun mannréttinda ekki verða trúverðug. Hann segir að fyrirtækið hafi átt að vera löngu farið frá Rússlandi en bætir við að þegar það gerist muni þarlendir notendur taka strax eftir því.