*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Erlent 21. maí 2020 15:33

Tinder notkun eykst en ekki tekjurnar

Veirufaraldurinn flýtti áætlunum um að fólk nýtti appið ekki einungis fyrir stundargaman heldur einnig fyrir stafræna samveru.

Ritstjórn

Miklar breytingar urðu á notkun á stefnumótaappinu Tinder í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins sem veldur Covid 19 sjúkdómnum um heim allan.

Elie Sedman forstjóri Tinder Inc. segir að hin breytta hegðun sé í samræmi við áætlanir félagsins um að breyta appinu úr því að vera einungis stað þar sem fólk skipuleggur að hittast í raunheimum í samskiptaforrit þar sem fólk skipuleggur stafrænar samverustundir.

Breytt notkun á appinu felur í sér aukna notkun sem kannski er ekki að furða fyrst fólk getur síður hist nú þegar víða um heim eru enn samkomu- og jafnvel útivistarbönn, en það hefur ekki þýtt meiri tekjur fyrir félagið.

Sunnudaginn 29. mars síðastliðinn mældist mesta notkun á appinu á einum degi, og bara í Bretlandi jukust samskipti milli notenda um 12% frá miðjum febrúar til loka marsmánaðar. Hins vegar hafa efnahagsleg áhrif veirufaraldursins haft þau áhrif að færri hafa tekið upp á því að greiða fyrir aukin fríðindi í appinu.

Því þó appinu hafi verið hlaðið niður 340 sinnum síðan það hóf göngu sína árið 2012 koma langmesti hluti tekna félagsins frá þeim 6 milljónum áskrifenda að gullmeðlimaþjónustu, en þeim hefur fækkað síðan veirufaraldurinn fór að hafa áhrif á fjárhagslega stöðu notenda.

Seidman hefur miklar áhyggjur af auknu atvinnuleysi í Bandaríkjunum vegna stöðunnar þar, en segir hægt að sjá það strax í áskriftartölum ef ástandið hefur lagast á ákveðnum stöðum.

„Þú getur í raun séð endurkomu hvers ríkis fyrir sig [í Bandaríkjunum], þegar opnast fyrir og byrjar að losna um höft, og komist er yfir erfiðasta hjallann,“ hefur BBC eftir Seidman.

Svipaða sögu má segja af öðrum stefnumótarforritum eins og The Inner Circle að sögn sérfræðings hjá félaginu. „15% aukning hefur verið í að fólk tengist hvort öðru og fjöldi skeyta á milli aðila hefur aukist um 10%, á sama tíma og við sjáum að færri eru tilbúnir að greiða fyrir þjónustuna.“

Seidman segir að það muni taka nokkra ársfjórðunga að sjá áhrifin af veirunni á fjárhag félagsins, en í júní ætlar Tinder að opna fyrir myndbandsspjall milli notenda. Þó einungis þannig að báðir aðilar verði að samþykkja að tala saman í mynd, en Siedman segir að stefnan á aukin stafræn samskipti hafi þegar verið komin í gang áður en veirufaraldurinn hófst.

Það sé því að unga fólkið nú, öfugt við þegar appið hóf göngu sína fyrir 8 árum, séu vanir samfélagsmiðlum frá blautu barnsbeini og sjái stafræna heiminn sem jafnraunverulegan og að hittast í raunheimum.

Þessi kynslóð er sögð ekki einungis muni nota appið til að skipuleggja að hittast og njóta nándar í raunheimum heldur sé það tilbúið til að eiga upplífgandi upplifanir í gegnum samfélagsmiðla og aðrar öldur ljósvakans.

Þess vegna sé það markmið félagsina að Tinder verði í minna mæli en verið hefur staður til að eiga stundargaman með öðrum heldur til að eyða stund saman á netinu, og kynnast fólki. Þannig er forritið að gera tilraunir með samskiptaherbergi, og atburði sem streymt er frá, sem og spurningakeppnir og „swipe“ kvöld.

Að mati Seidman er það í samræmi við lífsgildi yngstu notenda appsins:

„Stafræna líf þitt er eins mikilvægt eins og félagslega líf þitt í raunheimum.“

Á tímum heimsfaraldurs gæti það einnig í auknum mæli átt við um eldri notendur.