*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Erlent 12. september 2019 18:04

Tinder vex þrátt fyrir innreið Facebook

Hlutabréf Match Group, eiganda Tinder og annarra stefnumótunarkerfa, lækkuðu um 13% þegar Facebook Dating byrjaði.

Ritstjórn

Í kjölfar þess að Facebook tilkynnti að fyrirtækið að stefnumótakerfi sitt færi í gang á Bandaríkjamarkaði í síðustu viku hafa hlutabréf í Match Group, sem eiga mörg þekkt stefnumótaforrit, fallið um 13%.

Gengi bréfanna féll fyrst um 22% þegar Facebook tilkynnti um nýja kerfið í maí síðastliðnum, en eftir að notendur héldu áfram að nota kerfi félagsins hefur gengi bréfanna hins vegar meira en tvöfaldast.

Match Group eiga mörg þekkt vörumerki í stefnumótaheiminum, þar á meðal Tinder, Match.com, PlentyOfFish og OkCupid, en það er með höfuðstöðvar sínar í Dallas í Texasríki Bandaríkjanna.

Wall Street Journal segir í umfjöllun undir liðnum Heyrt á strætinu að fjárfestar ættu að geta vænst þess að hlutabréfin í Match Group muni ná sér á ný og jafnvel hækka meira líkt og áður, og er ástæðan sögð endurtekin hneykslismál um persónuvernd hjá Facebook á síðasta eina og hálfa árinu.

Fyrr í vikunni sýndi Gary Swidler, framkvæmdastjóri tæknimála hjá Match ráðstefnugestum Deutsche banka í Las Vegas að notendahópur forrita fyrirtækisins haldi áfram að vaxa á sama tíma og Facebook Dating er að koma til sögunnar.

Jafnvel hafi vöxtur Tinder, Match.com, OkCupid og PlentyofFish verið meiri í Kanada frá október 2018 til júlí 2019 þrátt fyrir að Facebook Dating hafi farið í gang þar í Nóvember. Þannig hafi vöxtur Tinder áskrifenda nærri tvöfaldast og numið 50% á ári á sama tíma og stefnumótaapp Facebook hafi hafið göngu sína á sama markaðssvæði á sama tíma.

Facebook segir hins vegar að stefnumótakerfi sínu sé ætlað að byggja upp þýðingarmikil og sterk sambönd milli fólks meðan Tinder, sem hefur oft verið lýst sem smáforriti fyrir yngra fólk og lauslæti, heldur áfram að vaxa.

Á öðrum ársfjórðungi fjölgaði áskrifendum að Tinder um hálfa milljón, en sem er næst mesta fjölgun á einum ársfjórðungi frá stofnun þess. OkCupid sem höfðar til eldri hóps sá jafnframt vöxt á alþjóðamörkuðum sem og vöxtur hins nýja Hinge sem félagið keypti í febrúar á þessu ári hafi tvöfaldast á öðrum ársfjórðungi.

Í heildina á Match Group 45 stefnumótafyrirtæki, en um helmingur viðskiptavina þeirra er í Norður Ameríku, en hinn helmingurinn í restinni af heiminum.