Póst- og fjarskiptastofnun mun bjóða út tíðnisvið fyrir þriðju kynslóð farsíma innan skamms, segir í tilkynnigu. Gert er ráð fyrir að tíðniheimildir verði gefnar út í byrjun annars ársfjórðungs 2007.

Haft verður samráð við hagsmunaaðila og hafa þeir frest til klukkan 12:00, miðvikudaginn 20. desember til að skila inn umsögnum, athugasemdum og ábendingum.

Allt að fjórum bjóðendum verður úthlutað tíðnum.

Gerð verður lágmarkskrafa um útbreiðslu til hvers tíðnirétthafa samkvæmt lögum nr. 8/2005. Skal þriðju kynslóðar farsímaþjónusta ná til að minnsta kosti 60% íbúa sérhverra eftirfarandi svæða:

a) Höfuðborgarsvæðis
b) Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra
c) Norðurlands eystra og Austurlands
d) Suðurlands og Suðurnesja

Sett verða skilyrði um hraða uppbyggingarinnar í fjórum áföngum. Tíðniheimildir munu gilda í fimmtán ár.

Þjónusta sem byggir á þriðju kynslóð farsíma tryggir neytendum hraðari gagnaflutning en hefðbundin farsímaþjónusta sem byggir á GSM tækni.

Erlendis hefur þjónusta sem byggir á tækni þriðju kynslóðar farsíma sótt í sig veðrið undanfarið og ýmis þjónusta sem krefst mikillar bandbreiddar hefur náð fótfestu.

Notendabúnaður er til í fjölbreyttu úrvali á samkeppnishæfu verði. Það er því von Póst- og fjarskiptastofnunar að úthlutun tíðniheimilda fyrir þriðju kynslóðar farsímaneta hér á landi muni leiða til aukins framboðs þjónustu og aukinnar samkeppni á fjarskiptamarkaði hérlendis.