Tveir nýir framkvæmdastjórar hafa verið ráðnir til Húsasmiðjunnar. Guðrún Tinna Ólafsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri verslanasviðs og Kenneth Breiðfjörð framkvæmdastjóri fagsölusviðs.

Guðrún Tinna Ólafsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri verslanasviðs Húsasmiðjunnar, en hún hefur reynslu af smásölu, stefnumótun og rekstri fyrirtækja. Tinna er með M.S. gráðu í fjármálum með áherslu á stjórnun og stefnumótun.

Tinna starfaði m.a. sem rekstrarstjóri verslunarsviðs Fríhafnarinnar ehf, framkvæmdastjóri og eigandi íslenska barnafatamerkisins Ígló ehf. og þar áður hjá Baugi Group þar sem hún vann m.a. með stjórnendum smásölu- og fasteignafyrirtækja í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi.

Þar áður starfaði hún hjá Kaupthing Bank Luxembourg og hjá VÍB. Tinna hefur jafnframt góða reynslu af stjórnarsetu hér á landi og erlendis á sviði smásölu, fasteigna og trygginga. Í dag situr Tinna í stjórn fasteignafélagsins Regins hf. og er stjórnarformaður Svanna, lánatryggingasjóðs kvenna.

Kenneth Breiðfjörð hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fagsölusviðs Húsasmiðjunnar. Kenneth er með M.S. gráðu í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og BS í umhverfis- og byggingarverkfræði. Einnig er hann með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Kenneth býr yfir mikilli þekkingu og reynslu af byggingavörumarkaði. Hann starfaði síðast sem forstöðumaður innkaupa-og rekstrarþjónustu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þar áður starfaði Kenneth hjá Húsamiðjunni til margra ára, síðast sem framkvæmdastjóri vörusviðs. Áður var hann meðal annars vörustjóri og rekstrarstjóri timburmiðstöðvar Húsasmiðjunnar. Kenneth þekkir því vel til starfssemi fyrirtækisins.

„Það er ánægjulegt að fá Tinnu og Kenneth í stjórnendateymið og þau munu taka virkan þátt í þeirri spennandi þróun og umbreytingu sem eru að verða á byggingavörumarkaði og í smásöluverslun," segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.