Veltan hjá fyrirtækinu Hundaföt Theo hefur aukist jafnt og þétt síðustu þrjú árin og er stefnt að því að selja föt fyrir um 100 miljónir króna á þessu ári. Stærstu viðskiptalönd fyrirtækisins eru Norðurlöndin en önnur lönd Evrópu sækja fast á. Að sögn Theodóru Elísabetar Smáradóttur, annars stofnenda fyrirtækisins og aðalhönnuðar, hefur vöxtur fyrirtækisins verið verulegur undanfarin þrjú ár og hann hefði ekki mátt vera miklu meiri svo að þau gætu ráðið við umfang hans.

Í viðtali við Viðskiptablaðið kemur fram að kveikjan að fyrirtækinu var sú að Theodóra átti lítinn hund sem var oft kalt. Hún fann ekki hentugan fatnað fyrir hann í verslunum og ákvað því að sauma sjálf hlýja flík á hundinn. Flíkin hlaut svo mikla athygli að fljótt var hún farin að sauma fyrir aðra og þurfti að ráða inn saumakonu. Fyrirtækið var stofnað í byrjun árs 2005 af henni og eiginmanni hennar, Sigurði Jónssyni.  Allar vörur fyrirtækisins eru framleiddar í Kína.

Fyrirtækið er að stærstum hluta í eigu Theodóru og Sigurðar, auk nokkurra fjárfesta. ,,Við höfum að mestu leyti fjármagnað þetta sjálf og þannig byggist það bara upp hjá frumkvöðlum. Íslenskir fjárfestar sýndu nú ekki mikinn skilning í upphafi á einhverjum gæludýrafatnaði.  Fólk bara hló að okkur í byrjun þannig að við höfum fjármagnað þetta sjálf og lagt allt okkar undir," segir Theodóra. Hún segir spennandi tíma fram undan. ,,Við ætlum að einbeita okkur að Evrópu fyrst um sinn enda höfum við byggt upp mjög gott orðspor á afar stuttum tíma."