Ítölsku tískumógúlarnir Domenico Dolce og Stefano Gabbana hjá Dolce&Gabbana þurfa að mæta í dómssal vegna ákæru um undanskot frá skatti. Skattayfirvöld á Ítalíu rýndu í bókhald tískukónganna árið 2009 og því fjögur ár síðan rannsókn málsins hófst. Þeir voru sýknaðir á lægra dómstigi. Hæstiréttur Ítalíu sneru niðurstöðunni hins vegar við fyrir áramótin. Aðalmeðferð í máli hönnuðanna hefst um miðjan mánuðinn.

Þeir Dolce og Gabbana, sem stofnuðu samnefnt tískuvörufyrirtæki árið 1985, eru sakaðir um að hafa stungið undan skatti í kringum 250 milljónum evra 249 milljónir evra, jafnvirði rúmra 42 milljarða íslenskra króna, þegar þeir seldu reksturinn árið 2006. Kaupandinn var þeim reyndar nátengdur, eignarhaldsfélag þeirra sjálfra sem skráð var í Lúxemborg. Ítölsk skattayfirvöld líta málið mjög alvarlegum augum og gætu tískukóngarnir átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsisdóm auk sektargreiðslu reynist þeir sekir um skattaundanskot.

Þeir Dolce og Gabbana hafa auðgast vel í gegnum tíðina án þess þó að hafa komist inn á auðmannalista. Ekki er þó útilokað að það geti gerst í mars þegar bandaríska tímaritið Forbes birtir árlegan lista sinn yfir auðugasta fólk í heimi, að því er fram kemur í umfjöllun bandaríska tímaritsins Fortune .