Tískufyrirtæki Victoriu Beckham, sem selur föt og ýmsa fylgihluti undir nafni Kryddpíunnar fyrrverandi, skilaði enn og aftur tapi á síðasta ári. Tap ársins 2018 nam 12,3 milljónum punda, eða sem nemur tæplega 2 milljörðum króna. Fyrirtækið hefur frá stofnun árið 2008 aldrei náð að skila hagnaði. BBC greinir frá þessu.

Sala fyrirtækisins á síðasta ári dróst saman um 16% frá fyrra ári og nam 35 milljónum punda. Er samdráttur í eftirspurn frá heildsölum sögð helst ástæða samdráttarins.

Ralph Toledano, stjórnarformaður fyrirtækisins, segir að sala á fötum og fylgihlutum hafi náð jafnvægi eftir nokkurra ára vöxt. Hann segir að afkoman hafi því verið í samræmi við væntingar stjórnenda. Þá segir hann að fyrirtækið stefni á að verða arðbært eins fljótt og hægt er.

Föt og fylgihlutir Victoriu Beckham eru til sölu í yfir 400 verslunum víða um heim.